14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

146. mál, almenn hjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það var að eins örstutt athugasemd, út af því, sem háttv. 1. þm.

S.-M. (Sv. Ó.) sagði. Hann gat þess, að hjálp þessi kæmi ekki að gagni smærri kauptúnum landsins. Þetta fæ jeg alls ekki skilið. Og hvers vegna ekki? Eftir frv. eiga smærri kauptúnin alveg sömu kröfu til hjálparinnar og stærri bæir. T. d. er ætlast til, að allmikið fari í Suður-Múlasýslu, beinlínis í kjördæmi hins háttv. þm. (Sv. Ó.). Býst jeg ekki við, að honum þyki það neitt óverulegt.

Annars vil jeg enn minna á það, sem jeg sagði í upphafi fyrri ræðu minnar, að fyrir verðhækkun kola er sköpuð sjerstök dýrtíð, sem er orðin svo ógurleg, að ómögulegt er að gera sjer hugmynd um það. Það er ómögulegt að ætlast til, að sveitarfjelögin geti dregið stórum úr henni, nema þá sje dregið úr kröftum þeirra, til að hjálpa á öðrum sviðum, er þarf. Ef atvinnuleysi ef til vill bætist við dýrleika á vörum, þá skulum vjer sjá, hvort það verður ekki nóg hlutverk sveitar- og bæjarstjórna að hjálpa í hinni almennu dýrtíð. Hafa menn athugað það, að hjer í Reykjavík og annarsstaðar hefir atvinna undanfarið verið með langmesta móti og hátt kaup verið goldið, sem vegið hefir á móti verðhækkuninni? Athugi menn þá, að nú virðist atvinnubrestur fyrir dyrum, sem getur gert það að verkum, að fjöldi manna fari á vonarvöl, og athugi síðan, hvílík byrði það verður fyrir sveitarsjóðina.

Jeg er sannfærður um, að það er ósanngjarnt að krefjast þess, að bæjar- og sveitarsjóðir bæti úr þessari sjerstöku koladýrtíð, án þess að landssjóður hlaupi undir bagga. Það er stórkostleg ósanngirni og þröngsýni. Verðmunurinn er ekkert smáræði. Hjer er um svo stórt að ræða, að það getur sett menn á sveitina. En ef kolaverðið yrði eins og gert er ráð fyrir hjer í 3. gr., gæti það ef til vill haldið mönnum frá að fara beint á sveitina. Er það heppilegt, að þeir menn, sem halda landssjóði í sínum höndum, láti stjórnast af svo mikilli þröngsýni á hag kaupstaðarbúa, að þeir vilji ekki taka þátt í þessari neyð, er sjerstaklega þetta grimmilega kolaverð leggur á kaupstaðarbúa?

Hvað sem háttv. þm. sveitakjördæmanna segja »fyrir hönd sinna kjördæma«, þá er jeg sannfærður um, að sveitabúar vilja gjarnan rjetta hjálparhönd í þessu efni. Það skal sannast, þótt seinna verði.