29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get verið mjög stuttorður. Eins og kunnugt er var tveimur frumvörpum til breytinga á núgildandi lögum um aðflutningsbann á áfengi vísað til allsherjarnefndar. Í öðru af frv. þessum var ákvæði um það, að ef það næði fram að ganga, þá skyldu öll lög, sem að þessu lúta, færð saman í eina heild. Þegar nefndin fór að athuga þessi frv. bæði og málið í heild sinni, þá komst hún að þeirri niðurstöðu, að ekki mundi auðið að setja saman í eina heild bannlögin og þær breytingar, sem bæði hafa verið gerðar á þeim, og yrðu gerðar, ef þessi frv. væru samþykt. Hún tók því það ráð að steypa saman í eitt öllum lögum, sem til eru um þetta efni, og bæta inn í þeim breytingum, sem meiri hluti nefndarinnar vill að gerðar verði á þeim. Í frv. er það prentað með feitu letri, sem er nýtt eða breytingar á gildandi löggjöf, svo að það kæmi ljóst fram, hverju nefndin vill bæta við eða breyta í ákvæðum þeim, sem nú eru til. Meðan ekki er fyrir sjeð um forlög þessa frv. ætlar nefndin sjer ekki að leggja fram neitt sjerstakt nefndarálit um hin tvö. Annars sje jeg ekki ástæðu til að taka fleira fram að sinni, þar sem þetta er 1. umr., og því ekki vert að fara út í einstök atriði. Þess skal þó getið, að í frv; er ein prentvilla. Í 15. gr. stendur á einum stað 500, í stað 50, í ákvæðinu um þá, sem nota áfengi til drykkjar, þótt þeir hafi fengið það í öðrum tilgangi.

Eins og sjest af greinargerð nefndarinnar á þgskj. 597 hafa tveir menn í nefndinni tekið sjerstöðu til þessa frv. og áskilið sjer að greiða atkv. á móti því. Um 3. manninn, háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), er það að segja, að hann var ekki með á þeim nefndarfundi, sem þetta mál var til meðferðar. Það var á sunnudegi, og hann hafði brugðið sjer heim til sín. Þegar hann kom, skrifaði hann undir greinargerðina á fundi í nefndinni, en hafði þá ekki haft tíma til að hugsa um einstök atriði þess. Þegar hann svo hafði athugað þetta betur, komst hann að þeirri niðurstöðu, að hann gæti ekki verið með frv. Jeg tek þetta fram til þess, að menn skuli ekki furða sig á því, að hann greiðir atkv. öðruvísi en hinir nefndarmennirnir, þótt hann hafi skrifað fyrirvaralaust undir greinargerð nefndarinnar. Hann skrifaði undir án þess að hafa haft tíma til að athuga málið nógu rækilega.