03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Fjármálaráðherra (S. E):

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði mikið um æsta bannmenn í ræðu sinni. Jeg skal ekki fara út í neina sundurgreiningu í því sambandi, en jeg þykist þó geta sagt það, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er áreiðanlega ekki æstur bannmaður.

Annars voru það 2 atriði í ræðu hv. þm. (G. Sv.), sem jeg ætla að minnast svolítið á. Hann mintist á hækkun sekta á þeim mönnum, sem spekúleruðu í því að brjóta bannlögin. Jeg lít svo á, að þetta frv. bæti mikið úr í því efni, því að eftir því sem sektirnar hækka, eftir því verður minni ágóðinn hjá þeim mönnum, sem spekúlera í þessum »business«. Þeir líta vitanlega eingöngu á það frá gróðasjónarmiði, og ef gróðanum er hnekt eða áhættan eykst mikið, missa þeir áhugann fyrir þessari spekúlation. Jeg held því, að það sje alveg rjett að hækka sektirnar, og jeg get ekki ímyndað mjer, að þeir verði margir, sem hneykslast á því, þótt hart sje tekið á þeim mönnum, sem gera sjer það að atvinnuvegi að brjóta lög; að minsta kosti er þá tilfinningin fyrir velsæmi farin að minka í þessu landi, ef menn blikna af því.

Annað atriði, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um, var það, að lögreglustjórar mættu rannsaka dót farþega, og virtist honum það myndi hafa mikinn kostnað og fyrirhöfn í för með sjer, og ókleift að framkvæma það nema með mikilli aðstoð. Það er vitanlega svo, svo framarlega sem lögreglustjóri á að rannsaka hvert skip, sem kemur; en með þessu ákvæði er lögreglustjórunum gefin heimild til að rannsaka skip við og við. Og þegar menn eiga von á rannsókn við og við, þá þora þeir ekki lengur að brjóta lögin. Ef hirslur farþega eru gerðar friðhelgar, er það sama sem að friðhelga lögbrjótunum rúm í hverju skipi. Vitaskuld fellur þetta undir tollgæsluna í Reykjavík, þegar hún er komin á.

Þá vjek háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) að því í lok sinnar löngu ræðu, að sögur gengju um það, að eitthvað athugavert hefði verið við merkin á Þórsáfenginu í vetur. Svo leit út, sem hann vildi á mjög hægan og rólegan hátt smeygja því inn í áheyrendurna, að það væri víst eitthvað til í þessum sögum um það, að lögreglan hefði viljað bjarga höfðingjunum undan refsingu fyrir áfengissmyglun. Jeg minnist þess nú, að þessi háttv. þm. (G. Sv) ritaði í vetur grein, þar sem hann talaði með allmikilli gremju um það, ef eitthvað af merkjunum skyldi hafa farið illa í höndum lögreglunnar. Það gefur að skilja, hve skemtilegt það er fyrir lögregluna að fá svona aðdróttanir, einmitt þegar hún gerði alt, sem í hennar valdi stóð, til að koma upp um smyglarana. Það hljóta allir að sjá, hvílík afskapleg móðgun þetta er fyrir lögregluna. Þegar opinberum starfsmönnum er brugðið um að hafa notað vald sitt til þess að hlífa vissum meiri háttar mönnum, þá eru það svo afskaplega móðgandi aðdróttanir, að þær ættu ekki að koma fram, nema þær væru á einhverjum rökum bygðar. (G. Sv.: O!Sei, sei, sei!). Áfengið var flutt utan úr Viðey og undir eins upp í Hegningarhús, undir mjög ströngu lögreglueftirliti alla leiðina frá bryggjunni hjer upp í Hegningarhús, og þar var áfengið innsiglað í sjerstökum klefa. Það getur vel verið, að einhver merki hafi verið tekin af áfenginu, áður en það kom í lögreglunnar hendur, eftir að smyglararnir vissu, að alstaðar voru vakandi augu á þeim. Um það get jeg ekki sagt, Jeg veit vel, að það hafa flogið tröllasögur út um alt um það, að jeg hafi verið að vernda höfðingjana fyrir þessum merkjum. Kunningjar mínir hafa verið að tala um þetta við mig og þótt þetta leitt. (S. S.: Hverjir er sagt að hafi átt að fá þetta áfengi?) Það er sannað í prófunum, hverjir áttu að fá það, og þeir hafa játað það á sig. Jeg heyri það, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) situr með eitthvað af grun í sínu hjarta. (S. S. : Nei, nei). Jeg vil beina því til háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), af því að jeg veit, að hann er bannmaður, að ef það á að ráðast á þá lögreglustjóra, er reyna að gera skyldu sína, með því að gefa svona Gróusögum vængi, þá er það víst, að það fást ekki margir til að leggja sig í starf, sem er svo vanþakklátt. Mjer er alveg sama um þessar sögur, að því er sjálfan mig snertir, en jeg vil að eins benda bannmönnum á að fara varlega í því að kasta steinum að þeim mönnum, sem eru að reyna að vinna fyrir málefni þeirra.