08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

39. mál, fasteignamat

Frsm. minni hl. (Guðjón Guðlaugsson):

Það er ekkert nema tölurnar, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) kom með, sem jeg ætlaði að minnast á. Jeg álít, að þetta geti vel verið rjett, að það hafi verið hugsun löggjafans, að hús, sem svöruðu til helmings jarðarverðs, væru þau hús, sem jörðin þyrfti oftast nær með, til þess að vera sæmilega húsuð; það lætur ekki fjarri sanni. En reynsla mín hefir sýnt mjer það, að slík hús geta stundum verið allsendis ónóg. Jeg þekki t. d. eina jörð, sem jeg held að háttv. þingdeild þekki nafn á. Sú jörð er um l½—2 hundr.; á jörðinni eru 2 stór timburhús, engar engjar, að eins túnblettur fyrir 2 kýr. Þessi jörð hefir eigi að síður svona mikla byggingu vegna þess, að þar hefir verið sjávarútgerð og þær skipshafnir, sem sækja sjó þaðan, hafa orðið að vera þar; þar er því margt fólk, og auk þess kemur mikið af gestum þangað, og í því liggur það, að jörðin þarf að hafa svona mikla byggingu.

Þá er dæmi það, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) tók, að á jörð, sem er talin 5000 kr. virði, sjeu hús virt á 15000 kr. Jeg verð að segja það, að jeg tel slíka byggingu hreinustu fjarstæðu. (S. E.: Það kemur víða fyrir). Getur verið, en er þá ástæða til, að peningar, sem þannig er varið, gefi ekkert af sjer fyrir landið, þegar tekinn er skattur af húsum, sem bráðnauðsynleg eru fyrir landið? Það er óhóf, sem má ekki eiga sjer stað. Jeg get því ekki skilið, að það geti talist sanngirni að sleppa 12500 kr. skattlausum á jörð, sem er ekki virt nema 5000 kr., þegar í hinu dæminu, sem jeg nefndi, verður að gjalda skatt af öllum húsum. Jeg skil ekki annað, ef menn íhuga þetta atriði, en að menn sjái það, að jeg hefi nokkuð til míns máls.