11.08.1917
Efri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

39. mál, fasteignamat

Frsm. minni hl. (Guðjón Guðlaugsson):

Þetta mál er nú komið aftur til deildarinnar til 3. umr., og hefi jeg leyft mjer að skeyta dálítið framan við það, frá því sem það var samþ. við 2. umr. Brtt. við frv. á þgskj. 396 er nokkuð á annan veg en frv. var upphaflega, en hún er einföld og fljótskilin. Hún fer í þá átt að nema úr gildi 9. gr. fasteignamatslaganna. Jeg hygg, að allir muni geta skilið, að hún megi að skaðlausu hverfa úr lögunum, því að hún er eina greinin, sem ræðir um skattgjaldið, og á því þar naumast heima. Allar aðrar greinar laganna eru leiðbeiningar og reglur um það, hvernig matið eigi fram að fara. Greinin kemur því líkast því eins og skollinn úr sauðarleggnum og er með öllu óþörf. Auk þess er jeg þess fullviss, að hún verður mönnum mikið ásteytingarefni, og mikil óánægja mun af henni hljótast, ef hún verður svo langæ, að hún geti nokkur áhrif haft. Mjer hefir því komið til hugar, að rjettast muni að afnema hana, og jeg held, að jeg hafi jafnvel minst eitthvað á það í nefndinni, þó að jeg sje ekki viss um, að hv. meðnefndarmenn muni minnast þess, því að jeg lagði ekki mikla áherslu á það á því stigi málsins. Annars mun það hafa verið háttv. þm. Ísaf. (M. T.), sem mintist á þetta við 1. umr. málsins og gat þess, að 9. gr. ætti ekki heima í lögunum. En þó að jeg álíti þetta heillaráð, get jeg samt ekki sagt, að jeg iðrist eftir því að hafa borið málið fram í þeirri mynd, sem jeg upphaflega gerði. Það hefir orðið til þess, að umræðurnar hafa orðið víðtækari en ella og hafa gefið tilefni til margskonar hugleiðinga, þegar að því kemur, að skatturinn verði lagður á. En jeg álít, að það sje skynsamlegt að fá þessu breytt nú þegar, nema þennan hortitt úr lögunum sem fyrst. Og jeg hygg, að engan muni furða á því, þó að skoðanir mínar hafi breyst nokkuð í þessu efni síðan farið var að fjalla um málið. Því að sannleikurinn er sá, að ábúðarskatturinn stendur alveg óhaggaður, þó að viðaukatillaga mín verði samþykt. Auk þess ber þess að gæta, að nauðsyn ber til að taka skattamálin í heild sinni bráðlega fyrir. Jarðamatsbókin verður væntanlega löggilt árið 1920, og þarf þess vegna að taka skattamálin til íhugunar þegar á næsta þingi.

Annars skal jeg geta þess í þessu sambandi, að hinn svokallaði ábúðarskattur af húsum leiguliða er í raun og veru alls enginn ábúðarskattur. Eignarskattur gæti að sjálfsögðu komið þar til greina, en ákvæði um hann verða að bíða síns tíma.

Jeg vona, að jeg þurfi svo ekki að fara fleirum orðum um viðaukatill. mína, því að jeg geng að því vísu, að háttv. þingdm. skilji málið svo vel, að þeir geti hæglega áttað sig á henni, og jeg treysti því, að þeir styðji hana, svo að hún nái að ganga fram.