23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri

Þorsteinn Jónsson:

Jeg man, að þegar ástæður voru færðar fyrir þessu frv. hjer í deildinni á dögunum, var ein meðal annars sú, að ýmsar jarðir í Arnarstapaumboði væru vel lagaðar til þjettbýlis, og enda þegar risin upp þorp á sumum þeirra. Það var enn fremur sagt, að nokkrar jarðir þar mundu alls ekki verða seldar í framtíðinni, og líklegt væri, að landssjóður mundi fá af þeim miklar tekjur. Jeg kom fram með brtt. á þgskj. 525, en tók hana aftur, en kem með aðra brtt. á þgskj. 561, sem er söm og hin að efni til. Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa brtt. af því, að jeg hygg, að líkt standi á í Múlasýslum og Arnarstapaumboði. Í Múlasýslum eru meðal annars 3 jarðir, sem eru eign landssjóðs að nokkru eða öllu leyti og kauptún hafa myndast á, sem margt bendir á að muni vaxa. Þessar 3 jarðir eru Nes í Norðfirði, Kollaleira í Reyðarfirði og Kjafteyri í Fáskrúðsfirði.

Um 1. jörðina, Nes í Norðfirði, er það að segja, að hún er að ? eign hins opinbera. Á þessari jörð hefir bygst stærsta þorp á Austurlandi, næst Seyðisfirði, og hefir það vaxið meir á síðari árum en nokkurt annað þorp eystra. Tekjurnar af þessari jörð skifta þúsundum króna á ári.

Um 2. jörðina, Kollaleiru í Reyðarfirði, er það að segja, að hana á landssjóður alla, og á henni hefir verið bygt kauptúnið Búðareyri, sem líkindi eru fyrir að vaxi mikið og landssjóður hefir þegar kostað nokkru fje til. Hann hefir sem sje lagt nokkur þúsund kr. í hafskipabryggju þar, og þaðan hefir verið lögð Fagradalsbrautin, sem gerir það að verkum, að verslun Hjeraðsbúa er að flytjast að miklu leyti til Reyðarfjarðar. Höfnin þar er mjög góð, og þar sem líklegt er, að þorpið vaxi, þá verður jörð þessi verðmikil eign fyrir landssjóð. Tekjurnar eru að vísu ekki miklar enn af Kollaleiru, um 400 kr., en gæta verður þess, að skamt er síðan þorp fór að myndast þar (á Búðareyri).

3. jörðin, Kjafteyri í Fáskrúðsfirði, er að öllu leyti eign landssjóðs, og liggur hún fast að Búðakaupstað. Bæjarstæðið, sem er í Búðalandi, er þegar bygt, svo að það, sem verður bygt hjer eftir, byggjst áreiðanlega í Kjafteyrarlandi. Það er þegar búið að mæla út 8 lóðir, og tekjurnar af jörðinni eru þegar orðnar 300 kr. Þessi hluti þorpsins, sem liggur í Kjafteyrarlandi, er líklegur til að vaxa. Þar er hafskipabryggjustæði betra en fyrir Búðalandi. Þetta þorp hefir vaxið á seinustu árum mest allra þorpa á Austurlandi, næst Norðfirði, og líklegt er, að það haldi áfram að vaxa, því að Fáskrúðsfjörður er vel lagaður til sjávarútvegs.

Enn fremur er 4. jörðin í Múlasýslu, sem gefur landssjóði miklar tekjur, sem líklegt er að vaxa muni að miklum mun, og getur ekki komið til mála að selja. Sú jörð er jörðin Vattarnes ásamt fuglabjarginu Skrúð. Þar er að vísu ekki löggildur verslunarstaður, en þar er fiskiþorp og útræði talsvert. Vattarnes liggur mitt á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, og liggur það betur við til fiskiróðra en flestir aðrir staðir eystra, vegna þess, hve skamt er þaðan á fiskimið, og það hefir um leið góða höfn.

Af þessum ástæðum, er jeg nú hefi greint, vona jeg, að háttv. þingdm. skilji, að líkt stendur á með Múlasýslu- og Arnarstapaumboð; og svo framarlega sem samþ. verður að láta Arnarstapaumboð haldast, verði af jafngildum ástæðum samþ.brtt., sem jeg hefi flutt Það, að háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) er á móti brtt. minni, hygg jeg stafa af því, að hann er ekki kunnugur staðháttum eystra.