24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

128. mál, stofnun landsbanka

Guðjón Guðlaugsson:

Það verður nokkuð lík niðurstaða hjá mjer og hjá háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), því að þessar brtt. á þgskj. 502 geta gert það að verkum, að jeg greiði atkvæði með frv., enda þótt jeg hafi hingað til greitt atkvæði á móti því.

Jeg sje ekki ástæðu til að halda því, sem stendur í frv. um launin. Jeg ætla að byrja á því, að jeg er á sömu skoðun og háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), að hinar brtt. sjeu þýðingarlitlar, því að það hefði komið í sama stað niður að fella brtt. nefndarinnar. Jeg finn enga ástæðu til þess að fara að baka bankanum nú 10,000 kr. útgjöld, og því síður get jeg verið með því að baka honum 14,000 kr. útgjöld, með því að halda gæslustjórunum. Jeg álít sjálfsagt að afnema gæslustjórana, þegar bankastjórarnir verða þrír, og eftir því sem jeg hugsa lengur um það, finst mjer jeg sannfærast um það, að breytingin sje á hina hliðina til bóta. Jeg hefði annars ekki talið það heppilegast að gera þetta á þessu þingi, enda þótt svo stæði á, að bankastjórarnir væru settir.

Þá vil jeg fara nokkrum orðum um gæslustjórakosning þingsins. Hvernig er sú kosning?

Það eru þeir menn, sem njóta þess, að þeir eru duglegastir að reyna að ná sjer í eitthvað og þykja þess verðir af flokknum, og þar af leiðandi verður það, að gæslustjórastaðan getur oft orðið bitlingur, sem hún þó ekki á að vera. Þessu held jeg að ekki sje hægt að neita, með því að flokkaskiftingin er, eins og kunnugt er, þannig, að um jafnsterka flokka er að ræða. Þess vegna getur það orðið vafamál, þegar um tvo menn er að ræða; annar þeirra er sjerlega vel hæfur maður, en hinn er að almenningsáliti ekki eins hæfur; þá er það algerlega undir hælinn lagt, hvort sá, sem hæfari er, verður tekinn eða ekki. Því að tilviljun ein (hlutkesti) ræður, hver flokkur eða pólitisk klíka fær sinn kandidat.

Að því er launin snertir, þá er það ekki svo, að jeg álíti endilega, að 6000 kr. laun sje hæfilegt, heldur er það af því, að jeg tel ekki heppilegt að gera nú verulegar breytingar á launum starfsmanna landsins. En þessi laun eru sæmileg, eins vel viðunanleg eins og áður, og þess vegna er það mitt álit, að þessa brtt, eigi að samþykkja; að minsta kosti legg jeg mikið upp úr þeirri breytingu, að launin sjeu höfð hin sömu og áður.

Sem sagt, jeg legg mikla áherslu á það, að brtt. um launin nái fram að ganga. Það er aðallega hún, sem ræður atkvæði mínu. Ef jeg fer að greiða atkvæði með frv., hjeðan af, án þessarar breytingar, þá er það ekki nema áfrýjun til háttv. Nd. um, að hún breyti því svo, sem jeg óska.