05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

128. mál, stofnun landsbanka

Björn Kristjánsson:

Jeg vildi að eins segja fáein orð út af ræðu hv. 2. þm. Árn.

(E. A.). Jeg tók eftir því, að hann sagði að á tímabilinu 1885— 1909 hefðu aldrei orðið vandræði úr, þótt bankastjórar hefðu verið 3. Það er rjett, en, eins og menn muna, var bankinn þá ekki stór og viðskifti hans út á við ekki mikil, en háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gleymdi einu atriði, sem er aðalatriði, að í lögunum 1909 verða minst 2 bankastjórar að undirskrifa öll skjöl og allar útborganir til gjaldkera úr sjóði bankans. Þetta var ekki í lögunum frá 1885. Nú eru kann ske framlagðir 50 víxlar á dag, og svo eða svo mörg lán eru tekin. Verða minst tveir bankastjórarnir að skrifa undir alt þetta, og eru þá, eins og jeg sagði, »skrúfaðir á bekkinn« með þessu ákvæði, þegar bankastjórarnir eru offáir. Þetta varð samhliða því, að bankastjórar urðu 2, og stendur því alt öðruvísi á eftir 1909 en áður. Þetta vildi jeg benda á, því að það hefir mikla þýðingu, er rætt er um þetta mál. Til þess því, að bankastjórarnir verði ekki fangar í bankanum, þarf fleiri menn til að skrifa undir en 3. En með þessu ákvæði, að bankastjórar skuli að eins vera 3, en gæslustjórar hverfi úr sögunni, verða þeir fangar.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) leit fremur á bankastjórana sem ráðsmenn. En jeg held, að menn líti meira á þá sem sjálfstæða stjórn, sem vitanlega eigi að ráða sína starfsmenn. Því miður er enn ekki svo langt komið, að sett sje bankaráð, en þótt það væri sett, er jeg í engum vafa um, að bankaráðið myndi alment fallast á till. samanlagðrar bankastjórnarinnar. T. d. mun aldrei hafa verið nein misklíð út af slíku í Íslandsbanka, eða vikið út af ráðum bankastjórnar. Þá sýnist það ekki hafa mikla þýðingu, er hann (E. A.) tók fram um það, því að vitaskuld verður bankastjóri að geta haft vald yfir sínum starfsmönnum, því að annars geta þeir orðið óþekkir og hrokafullir. Þeir haga sjer alt öðruvísi ef þeir vita, að bankastjórnin hefir ekki aðalvaldið. Viðvíkjandi launum settra bankastjóra benti hann á almennar reglur, er gilda um setta embættismenn. Þeir eiga þá, samkvæmt því, að fá launin hjá bankastjóranum sjálfum, sem ef til vill er á ferðalagi fyrir bankann. Ef bankastjóri fer því til Kaupmannahafnar í erindum bankans, á hann að borga þeim, sem settur er fyrir hann, úr eigin vasa. Þetta virðist hola í lögunum.

Annars skal jeg ekki eyða tímanum í að þrátta um þetta. Jeg ætlaði að segja mína skoðun einu sinni og ekki oftar.