30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Magnús Torfason:

Þegar jeg bjó á Suðurlandsundirlendinu, var fyrst vakið máls á því, að þörf væri á að bæta hafnir þar, og var það þá gert að nokkru leyti. Eins og menn mun reka minni til var fje veitt til umbóta á Stokkseyrarhöfn og innsiglingunni þangað, með tillagi frá sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslna. Stefnan var fyrst sú að bæta hafnir og lendingar á Suðurlandsundirlendinu, þessu stóra og auðuga hjeraði, þar sem þess þyrfti við. Síðan kom sú stefna fram að bæta samgöngur á Suðurlandsundirlendinu, með því að leggja þangað járnbraut, og skal jeg ekki lasta það. Sú stefna hefir sjálfsagt mikið til síns máls. En þó verð jeg að taka það fram, að járnbraut eykur ekki beint framleiðslu, en aftur á móti auka hafnarbætur hana. Það geta verið skiftar skoðanir um það, hvort ekki skuli byrja á hafnarbótum og láta svo höfnina fæða af sjer járnbraut síðar. Jeg álít þetta tvent svo samtvinnað, að rjettast sje, að áður en ákveðið er, hvora stefnuna menn taka, verði rannsökuð til hlítar öll skilyrðin fyrir lendingabótum austanfjalls. Jeg veit það, eftir að hafa á ný kynst hugum manna fyrir austan, að mjög eru skiftar skoðanir þar, hvor stefnan sje rjettari og á hverju skuli byrja. Jeg hygg, að áður en ítarleg rannsókn á lendingastöðum fer fram sje ekki hægt að gera neina vel undirbúna framkvæmd í þessu máli.

Jeg skal ekkert um það segja, hvað slíkar rannsóknir og áætlanir mættu kosta, en benda á, að sjálfsagt er, að málið fari til nefndar.