23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

110. mál, fátækralög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allsherjarnefnd gat ekki fallist á, að till. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) væri samþykt. Við fyrri hluta þessarar umræðu tók háttv. flm. (J. B.) það fram, hver þau atriði væru í fátækralögunum, sem hann teldi sjerstaklega athugaverð og vildi að væru tekin til yfirvegunar. Þessi ákvæði eru öll tekin upp í nefndarálitinu og gerð grein fyrir þeim, hverju fyrir sig. Síðan hefir háttv. flm. (J. B.) komið fram með brtt. við till. sína. Eru þar sömu atriðin talin upp, en annars engu nýju bætt við. Eins og kunnugt er er það innihald tillögunnar, að fátækralögin sjeu í ýmsum atriðum harðneskjuleg og yfir höfuð ósamboðin þjóðinni. Það er nú um lög þessi að segja, að þau hafa haft betri undirbúning en flest önnur lög vor. Þau voru samin af milliþinganefnd og síðan samþykt á Alþingi með litlum breytingum, eftir mjög rækilega yfirvegun.

Jeg ætla nú að drepa lítils háttar á þessi atriði, sem háttv. flm. (J. B.) þykir einkum aðfinsluverð í lögunum.

Fyrsta atriðið er um sveitfestitímann. Háttv. flm. (J. B.) þykir hann oflangur. Um það virðast skoðanir manna mjög skiftar. Á undanförnum þingum hafa hvað eftir annað komið fram tillögur um það að stytta sveitfestitímann, færa hann niður í 5 ár, eða jafnvel niður í 2 ár. En þessar tillögur hafa jafnan verið feldar. Það er öldungis óþarft að skjóta því til stjórnarinnar að breyta þessu atriði. Hvaða þingmaður sem er getur borið fram frv. um það, hve nær sem ástæða þykir til.

Annað atriðið er það, að fátækralögin geri engan greinarmun á því, af hvaða ástæðum menn hafa orðið þurfandi. Þetta er nú ekki alveg rjett. Eins og bent er á í nál. eru 2 greinar í lögunum, sem miða að því að gera mun á þessu. Þetta sýnir, að milliþinganefndin, sem bjó lögin til, hefir tekið þetta atriði til yfirvegunar og haft hug á að taka tillit til þess.

Jeg skal játa það með háttv. flm. (J. B.), að æskilegt væri að fá rjettlátar reglur um þetta efni. En það er hægra sagt en gert. Hver ætti svo sem að dæma um það, hver orsökin til þurfamenskununar væri í raun og veru? Jeg fyrir mitt leyti sje eigi, að hægt sje að fela það öðrum en hreppsnefndum. Dóminn yrði að leggja í hendur hreppsnefndar í framfærslusveit þurfalingsins. Nú vill oft svo til, að menn verða þurfalingar langt frá framfærslusveit sinni, svo að hlutaðeigandi hreppsnefnd getur verið ókunnugt um, hvað þurfamenskunni veldur. Hvernig á hún þá að kveða upp dóm sinn?

Það er auðsjeð á brtt. háttv. flm. (J. B), að honum er það ljóst, að þetta er vandamál. Hann kemst t. d. svo að orði, meðal annars, að þeir ættu að fá að halda sínum borgaralegu rjettindum, sem verða þurfandi vegna ómegðar. Ef nú maður, sem á eitt barn, getur ekki staðið straum af því og verður að þiggja af sveit, þá má segja, að hann verði þurfandi vegna ómegðar, eins og þótt hann ætti fleiri börn. Þetta eina barn er líka ómegð, en þó er varla ástæða til, að maðurinn sje undanþeginn fátækrastyrk, ef hann er fullhraustur. Þetta sýnir, að hjer er vandfundinn meðalvegur.

Þriðja atriðið er það að gera fátækraflutning mannúðlegri. Jeg hefi ekki heyrt mikið undan því kvartað, að fátækraflutningur sje yfirleitt ómannúðlegur. Að vísu sá jeg eitthvað minst á eitt tilfelli í blöðum, ekki alls fyrir löngu, sem þótti vítavert, en jeg veit ekki, hve mikið er hæft í því, og varla má mikið upp úr því leggja. Ef maður les fátækralögin yfir, þá rekur maður sig á hverja greinina á fætur annari, sem reynir að draga úr þeim óþægindum, sem fátækraflutningurinn getur haft í för með sjer fyrir þurfalinginn. Í fyrsta lagi er svo ákveðið, að engan megi flytja fátækraflutningi fyr en bersýnilegt er, að hann sje kominn á stöðugt sveitarframfæri. Í öðru lagi ekki nema hann hafi þegið að minsta kosti 100 kr. Í þriðja lagi á að flytja þurfalinginn svo beint, sem hægt er, láta hann hafa vegabrjef og sjá honum fyrir allri fyrirgreiðslu. Í fjórða lagi skal ekki telja kostnaðinn við flutninginn til sveitarstyrks. Mjer er ekki ljóst, hvaða ákvæðum ætti hjer við að bæta. Ef nokkuð er athugavert við fátækraflutninginn, þá er það ekki lögunum að kenna, heldur framkvæmd þeirra. Lögin geta varla verið mannúðlegri í þessu efni en þau eru. Og það getur alls ekki komið til mála að afnema allan fátækraflutning. Reynslan hefir sýnt, að það verður töluvert dýrara að sjá fyrir þurfalingum annarsstaðar en í sinni framfærslusveit. Þetta var þriðja atriðið. Fjórða atriðið er það, að reglurnar um viðskifti sveitarstjórna sjeu óhagkvæmar. Þetta atriði er lítið rökstutt. Sjerstaklega hefir því verið haldið fram, að fresturinn, sem 66. gr. fátækralaganna ræðir um, sje ofstuttur. Það er hálfsmánaðarfrestur, sem settur er í þeim tilgangi, að afgreiðslan gangi sem fljótast. Hreppsnefnd á að tilkynna framfærslusveit þurfalingsins, að hann hafi þegið sveitarstyrk, hálfum mánuði eftir að styrkurinn er veittur. Jeg sje ekki, að þessi frestur sje neitt ofstuttur. Það, sem gera þarf, er ekki annað en það að skrifa eitt brjef. Skýrslu er búið að taka af þurfalingnum áður, þegar styrkurinn er veittur. Jeg sje ekki, að nein betri leið verði farin í þessu efni heldur en lögin ákveða.

Enn er á það að líta, að lögin eru nú búin að standa í 10 ár. Er því komin á föst stefna um skilning á einstökum atriðum, og stjórnarráðið er nú búið að kveða upp svo marga úrskurði, að menn eru farnir að vita, hvernig úrskurðað muni verða í deiluatriðum. Sá skrifstofustjóri stjórnarráðsins, sem hjer á hlut að máli, hefir líka sagt mjer, að það sje orðið miklu sjaldgæfara en var í fyrstu, að leitað sje úrskurðar stjórnarráðsins í deilum út af lögunum. Ef nú væri farið að breyta þeim, þá logaði aftur alt í deilum milli sveitanna, eins og áður var.

Enn er eitt atriði, sem mælir á móti því að skjóta málinu til stjórnarinnar. Maðurinn, sem mest vann að undirbúningi fátækralaganna, er nú forsætisráðherra. Það er ekki líklegt, að hann hafi komið auga á neinar verulegar nýjar leiðir í fátækramálunum, eða að skoðanir hans á þeim hafi breyst til muna síðan. Jeg tel því varla hugsanlegt, að hann sjái mikla ástæðu til að fara að umsteypa lögunum nú.