05.09.1917
Efri deild: 48. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

177. mál, meðferð á fé ómyndugra

Flm. (Guðjón Guðlaugsson):

Þessi tillaga, sem hjer liggur fyrir, mun nú álitið reglulegt smámál, enda hefi jeg ekki heyrt nokkurn mann tala um þetta mál sem þingmál, og byggi jeg á því það, að það mun álitið svo mikið smámál, að það svari naumast kostnaði að minnast á það.

Það er líka byrjað með málið sem smámál í fyrstu; það er tekið sem mál af lægri tegund, eiginlega helst sem mál af lægstu tegund; það er ekki tekið sem frv.; það er tekið sem þingsályktunartillaga, ekki þó sem þingsályktunartillaga frá þinginu öllu, heldur að eins sem þingsályktunartillaga frá annari deild þingsins. Það er því áreiðanlega í hinu smæsta formi, sem mál verður borið fram í, nema ef vera skyldi þetta alþekta svæfingarjárn, sem kallað er rökstudd dagskrá. En þó að ekki hafi verið haft hátt um þetta mál, sem fjallar um rjettindi ómyndugra manna og ómálga barna, þá hygg jeg, að ekki sje það óþarfara en að klifa þing eftir þing á breytingum, sem til engra bóta eru, á lítt þörfum lögum, eins og t. d. bannlögunum, eða þörfum, eins og forðagæslulögunum, og svæfa þær svo að lokum eftir mikla tíma- og fjáreyðslu.

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt hefir frv. stjórnarinnar um lögráð, eins og það var nefnt er það síðast var á ferðinni, gengið í gegnum þessa háttv. deild. Það frv. er að því leyti skylt máli því, er hjer ræðir um, að þar er sagt fyrir um forráðamenn ómyndugra. En mig furðar mikið á því, að stjórnin skyldi ekki taka fyrir tilskipunina frá 1847, fyrst að farið var að hreyfa nokkuð við málinu. Tilskipun þessi er nú orðin 70 ára gömul og því ekkert ungbarn lengur, enda er nú full þörf á að breyta til. Mjer kemur ekki til hugar að fara að telja alt til, sem finna má tilskipuninni til foráttu. Það nægir að benda á aldur hennar til þess, að mönnum skiljist, að svo gömul lög geta ekki staðist lengur. Tíðarandinn einn hefir ekki breyst, heldur hefir þjóðlífið alt tekið svo miklum stakkaskiftum, að samskonar ákvæði geta ekki átt við og fyrir 70 árum um þetta efni. Jeg vil t. d. benda á þau fyrirmæli tilskipunarinnar, að fjárhagur ómyndugra eigi að vera undir stöðugu eftirliti yfirfjárráðamanns, og hann skuli fá árlega reikning yfir hann, ef fjeð nemi yfir 20 hundruð á landsvísu. En ef það nemur ekki 20 hundruðum, þá þarf engan reikning yfir það að gefa.

Af þessu leiðir, að hæglega getur svo farið, að yfirfjárráðamaður gleymi algerlega fjárhagnum, ef hann er ekki persónulega nógu kunnugur. Honum getur t. d. verið ókunnugt um það, að eftir að samið var um meðlag með hinum ólögráða hafði hann fengið stað án meðlags, og gat því fje hans verið óeytt og ávaxtast, svo að hann hefði átt nokkur efni er hann varð lögráður. Til þessa eru allmörg dæmi. Þá sjá og allir, að ekki er minni ástæða til þess að hafa fult eftirlit, þó að eignirnar nemi ekki 20 hndr. Fyrst og fremst er ekki ótítt, að þeir, sem eiga yfir 20 hndr. í æsku, eyði þeim öllum, en þeir, sem minna hafa átt, hafa ef til vill safnað talsverðu fje. Jeg fyrir mitt leyti hefi þráfaldlega rekið mig á þetta. Auk þess er næsta hjákátlegt að miða eignir manna við hundruð á landsvísu á okkar tímum. Þegar verðlagsskráin hækkar, þarf t. d. ef til vill ekki nema 17 eða 18 hndr. til þess að jafnast á við þá, sem áður var 20 hndr., og þegar hún lækkar, fara þessi 20 hndr. niður úr markinu, sem áður var miðað við. Þetta fyrirkomulag er orðið svo úrelt, að við svo búið má ekki lengur standa. Þessi tilskipun á að vera til þess að verja rjett fátæklinga, en þó virðist þörfin ekki minni á að vernda rjett þeirra, sem minna eiga, heldur en þeirra, sem meira eiga — meiri ástæða til þess að verja rjett þeirra, sem eiga ekki fje, sem nemur 20 hndr., en þeirra, sem eiga meira en því nemur. En annars er þessi landsvísureikningur allur bygður á meira og minna röngum skýrslum, sem allajafna hafa verið til hneykslis og háðungar fyrir þessa þjóð.

Þetta, sem jeg hefi nú drepið á, er í 4. gr. tilskipunarinnar frá 1847. En þar er fleira. Þar er enn fremur svo ákveðið, að þegar fjeð er meira en 20 hndr., þá skuli auka það. Það er með öðrum orðum tekið fram, að ekki skuli setja fjeð á kistubotninn, heldur koma því á vöxtu. Þetta er alveg furðulegt ákvæði, en vel getur verið, að það hafi átt við á sínum tíma, en það á áreiðanlega ekki við núna.

Þá er það ákvæði tilskipunarinnar, að meta skuli peninga eftir meðalverði. Í raun og veru er algerlega hlægilegt að telja peninga í hndr. á landsvísu nú; hitt væri sönnu nær, að koma öllum eignum í peninga, því að nú er alt við þá miðað.

Um borgun til fjárhaldsmanna ómyndugra er svo ákveðið, að þeir skuli fá hluta af árstekjum, en þó því að eins, að eignirnar nemi 20 hndr., annars ekkert. Ef eignirnar eru 19 hndr. og 100 álnir, og þótt þær sjeu allar í jörðum og mikið þurfi fyrir umsjóninni að hafa, þá skal ekkert fyrir það goldið. En ef fjeð nemur 20 hndr., á fjárhaldsmaðurinn að fá 1/6 hluta teknanna, og eins fyrir það, þótt alt liggi í sparisjóði eða banka, þar sem ekkert þarf fyrir að hafa nema geyma sparisjóðsbókina eða verðbrjefið. Ein undantekning er þó við þetta ákvæði og er hún tekin upp í frumvarp það, sem jeg hefi minst á að væri hjer fyrir þinginu. Og þessi undantekning, sem er leifar úr dönsku lögunum, gerir að minni hyggju frumvarpið stórgallað. Hún er sú, að frændur skuli ekkert fá fyrir fjárhaldið, er þeir hafa það á hendi. Er þetta hinn mesti óþarfi, því að allir vita, að ekki er fátítt, að frændur sjeu frændum verstir. Og óskyldir menn reynast ekki ósjaldan munaðarleysingjum betur en skyldmenni. Svo að þetta ákvæði hefði aldrei átt að taka upp. Fjárhaldsmaður á ekki að fá þennan 1/6 hluta ef hann er afi, faðir eða bróðir hins ólögráða eiganda. Þetta er að vísu eðlilegt um föður, en síður um afa og síst um bróður. Bræður hafa engar skyldur hverjir við aðra að lögum; þeir hafa siðferðiskyldur einar. Bót er það nokkur í máli í frumvarpinu, að þar er aðallega talað um skylduna að forsorga, en síður um fjárráðin; lögin koma því ekki til greina ef arfur tæmist eða því um líkt. Í 16. gr. frumv. er öll tilskipunin 1847 í gildi, nema 1. gr. og 2 málsgrein 15. greinar.

Fleira er það í tilskipuninni en það sem jeg hefi drepið á, sem full þörf væri á að athuga og breyta. Svo er t. d. um það ákvæði, að þóknun fjárhaldsmannsins skuli vera miðuð við það, sem eftir er þegar öll útgjöld hafa verið tekin til greina. Ef barn á t. d. 10 jarðir, þá þarf fjárhaldsmaðurinn að byggja þær, taka við afgjaldinu og koma því í peninga, en þurfi barnið að nota alt fjeð, þá fær fjárhaldsmaðurinn ekkert fyrir alt sitt umstang. Hins vegar fær maður, sem ekkert gerir annað en geyma eina sparisjóðsbók, 1/6 hluta af jafnmiklu fje, ef ekki hefir þurft að nota það í þágu barnsins. Þetta ætti ekki að vera lengur í lögum; nóg er, að það hefir verið það í 70 ár. Þessi útgjöld, auk meðgjafarinnar, eru margvísleg; t. d. hefir það verið gert sumstaðar að láta ómynduga menn borga útsvör. Jeg þekki dæmi til þess, að tveggja ára barn var látið borga útsvar, og því haldið áfram til 18 ára aldurs, og fór ávalt hækkandi. Þetta var kært einu sinni af fjárhaldsmanni fyrir sýslunefnd, og fekst útsvarið lækkað ofurlítið, en sá sýslumaður, sem hjer átti hlut að máli, beitti sjer ekki eins röggsamlega í þessu máli eins og síðar að krefjast endurgreiðslu af fjárhaldsmanni, sem skildi tilskipunina svo, að hann hjelt sig ekki þurfa að taka til greina þesskonar gjöld sem útsvarið og fleira. Það var því ekki nóg með, að níðst væri á barninu, með því að leggja á það ósvífin útgjöld, heldur var líka níðst á fjárhaldsmanninum og hann látinn vinna algerlega fyrir ekki neitt. Því að útsvarið nam meiru en því fje, sem eftir var af tekjunum, þegar búið var að borga ýms nauðsynleg útgjöld. Fjárhaldsmaðurinn þurfti að sjá um, að barnið væri klætt, borga gjald fyrir fermingu o. s. frv., og vegna þess, að hann forsómaði þetta ekki, þá fekk hann ekkert af sínum launum. Þetta get jeg fært sönnur á hve nær sem vera skal. Tilskipunin er því bæði órjettlát gagnvart barninu og fjárhaldsmanni. Og ekki verður sagt, að það sje eingöngu að kenna breyttum tíðaranda og venjum, heldur má segja, að hún hafi aldrei verið rjettlát. Hún hefir verið vanskapnaður frá upphafi og hefði átt að vera komin í gröfina fyrir löngu.

Þá má geta þess, að í 5. gr. stendur, að ef fjáreignin nái ekki 50 krónum, þá þurfi ekki að setja hana á vöxtu. Þetta er æði undarleg ráðstöfun, því að vitanlegt er, að hvern eyri þarf að setja á vöxtu ef hann á að aukast. Allur kaflinn frá 7.—14. gr. er meinlaus og gagnslaus, því að ákvæðin eru öll svo úrelt. Þar ræðir meðal annars um uppboð á peningum, eins og nærri því þurfi að dekstra menn til þess að taka við peningum gegn 4% rentu. Fjárhaldsmaðurinn getur og sjálfur, ef honum sýnist, ljeð sjálfum sjer fjeð undir annars manns nafni, eða fengið það í hendur vinum eða frændum, sem þiggja vildu gegn þessari úreltu vaxtaupphæð.

Jeg held nú, að jeg hafi sýnt nægilega fram á, að hjer þurfi gagngerðra breytinga við. Þetta fyrirkomulag er bæði ranglátt og óviðeigandi. Jeg held því, að tilskipunin þurfi að sæta sömu meðferð og lögin um alidýrasjúkdóma, sem til umræðu hafa verið hjer í háttv. deild; það þarf að nema hana úr gildi. Enda er það til mikilla þrifa að kippa við og við burt óþörfum og úreltum lögum og hreinsa þannig til.

Jeg veit, að jeg stend hjer á allheitum glóðum, er jeg tek að mjer að flytja þetta mál, þegar svona margir sýslumenn og bæjarfógetar eru saman komnir, og þeir eru sjer allir þess meðvitandi að hafa beitt þessum ákvæðum svo, að alt hafi farið vel úr hendi. En sannleikurinn er sá, að það kemur í raun og veru þessu máli alls ekkert við. Jeg veit, að margir sýslumenn hafa reynt að fara eins lipurlega með þessa vitlausu löggjöf og þeim var unt. Þeir hafa margir hverjir sjeð um að koma fje á vöxtu þegar í upphafi og jafnan haft eftirlit með, að því væri sem best varið. En ef eingöngu er tekið tillit til þessara manna, þá mætti alveg eins segja, að við hefðum ekkert við lög að gera, heldur einungis góða menn.

Mín skoðun er sú, að þessu þurfi öllu að breyta. Vitanlega er alt hægra nú, síðan sparisjóðir og bankar komust á víða um land, en þeir einir nægja ekki. Og ekki má kasta öllu upp á sýslumennina, enda er þar, eins og víðar. misjafn sauður í mörgu fje. Jeg held, að rjettast verði að koma öllu fje ómyndugra í einn sjerstakan sjóð, og hafi sýslumenn engin afskifti af honum önnur en að segja til fjárins, en sjóðshaldarinn kalli þá eftir því og varðveiti.

Mjer hefir komið til hugar, að ef til vill hafi verið ástæðulaust fyrir mig að tala svona langt mál, þar eð vera kynni, að stjórnin hefði sjálf málið með höndum. Jeg veit, að hæstv. forsætisráðherra átti sæti í nefnd þeirri, er skipuð var 9. des. 1914 og fjallaði um eftirlauna- og launamál og um sundurgreiningu umboðsvalds og dómsvalds. Sú nefnd kom með svo hljóðandi tillögu í þessu máli:

»Yfirfjárráð ómyndugra á öllu landinu sjeu falin einum manni, yfirfjárráðanda, búsettum í Reykjavík. Hefir hann á hendi stjórn á og eftirlit með ómyndugra fje, með aðstoð sýslumanna.«

Þetta er tillagan. Þetta er föst og ákveðin tillaga, er sýnir, að hæstv. forsætisráðherra hefir þá verið þeirrar skoðunar, að þessum lögum þyrfti að breyta. Er jeg því öruggur og fullviss þess, að hann muni kippa þessu máli í lag, njóti hans við. Hins vegar verða menn að játa, að á öðrum eins tímum og þeim, er við lifum nú á, geta menn ekki vænst þess, að stjórnin geti sint almennum löggjafarmálum sem skyldi. Hún hefir annað að hugsa um, sjerstaklega dýrtíðarráðstafanir, sem og væru nóg verkefni fyrir þetta þing.

Skal jeg svo ekki eyða fleirum orðum að þessari tillögu. Vona jeg, að hún lengi ekki setu þingsins, þar sem hún kemur að eins fram í þessari háttv. deild, þótt jeg hins vegar hafi verið neyddur til að fylgja henni úr garði með nokkrum orðum.