06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

29. mál, skipun bjargráðanefndar

Flm. (Sigurður Eggerz):

Háttv. þm. Ak. (M. K.) þótti ástæða til að beina persónulegum hnútum að mjer. Hann gaf í skyn, að jeg hafi viljað láta bera mikið á mjer. með till. 1915.

Jeg veit, að háttv. þm. (M. K.) og þeim flokk, sem hann tilheyrir, er lítið ant um, að á mjer beri, og við því er náttúrlega ekkert að segja. En því get jeg trúað háttv. þm. Ak.

(M. K.) fyrir, að jeg bar till. 1915 ekki fram mjer til frægðar, heldur af hinu, að heilbrigð skynsemi sagði mjer, að sjálfsagt væri að birgja landið að vörum, og varð jeg forviða á því, er jeg sá, hve margir stóðu gegn till. Sannarlega þurfti engan spámann til að sjá, eins og þá var komið, að harðna mundi, og best væri að vera við öllu búinn.

Þar sem háttv. þm. Ak. (M. K.) mintist á stjórnina 1914, þá þykir mjer gaman að minna hann á, að fyrir kolakaup stjórnarinnar gátu togararnir þá haldið áfram veiðum sínum. Í minni stjórnartíð var keyptur fyrsti matvörufarmurinn frá Ameríku, og voru kaupmenn hjer á landi alveg eins og »furiur« yfir þessu. Á meðan jeg var í Kaupmannahöfn samþyktu þeir vantraustsyfirlýsingu á mig; þótti hart, að farmurinn var ekki fenginn þeim til sölu, svo að þeir gætu notið ágóðans af honum, en einmitt þá treystu þeir sjer ekki til að útvega landinu vörur eins og þurfti, sem ef til vill ekki heldur var von. Jeg held, satt að segja, að kaupmennirnir, sem hafa staðið eins og hringur utan um Alþingi, hafi dregið mest úr framkvæmdum þings og stjórnar til að birgja landið. Þetta er sannleikur, sem þarf að segjast.

Það er ekki hægt annað en furða sig á því, að útgerðarmenn, sem hafa nægan fjárafla, skuli ekki hafa gert alvarlegar ráðstafanir til að hafa gnægð kola og salts. Og er þetta vantar, þá er auðvitað allri skuldinni skotið yfir á stjórnina. En því mega menn ekki gleyma, að þeir verða einnig að reyna að bjarga sjer sjálfir, en kalla ekki altaf á stjórnina, eins og þegar ósjálfbjarga barn kallar á mömmu sína.

Það er hart, að menn, sem hafa eins mikil peningavöld og útgerðarmennirnir og kaupmennirnir hafa, skuli ekki sjá fyrir því, að þeir verði ekki olíulausir á miðjum útgerðartímanum.

Eftir að mjer var þetta orðið ljóst, árið 1914, þá vildi jeg gera alt hvað jeg gæti til þess, að þingið birgði landið upp að þessum vörum; því bar jeg fram tillöguna 1915; en jeg get vel skilið það, að háttv. þm. Ak. (M. K.) beri dálítinn kinnroða, eftir að hann hefir barist á móti svo þarfri till.

Jeg vil ekki minnast á þetta til þess, að vekja neinar illdeilur, heldur til þess, að núverandi þing geri sig ekki sekt í öðrum eins óhöppum og þá.

Þeir, sem hafa verið á móti vörukaupum, hafa verið að hampa verðfalli á vörunum. En er ekki betra að bera ábyrgð á tapi því, er leiða kann af verðfallinu, heldur en á því, að landið sje vörulaust? Það er merkilegt, að ráðsettir menn skuli koma með svona vandræðalega athugasemd.

Jeg vona, að þessi ráðning megi nægja fyrst um sinn.