13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

143. mál, verðhækkunartollur

Hákon Kristófersson:

Þegar jeg sá þetta frv., þóttist jeg strax sjá, að það væri fram komið í þeim tilgangi að afla landssjóði tekna. Jeg bjóst því við, að hæstv. stjórn mundi mæla með frv. á þann hátt, eins og líka hefir verið gert að nokkru leyti. Það er því ekki rjett, eins og hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) vill halda fram, að frv. sje til þess fram komið, að fullnægja tilgangi þingsins 1915. Það, sem vakti fyrir því þingi, er það samþykti lögin um verðhækkunartoll, var alt annað en það, sem í þessu frv. felst. Árið 1915 var góðæri bæði til lands og sjávar. Verslun landsins var óvenjulega hagstæð. Allar afurðir, er framleiddar voru í landinu, voru í alveg óvanalega háu verði, og saman borið við það mátti heita, að aðfluttar vörur væru mjög ódýrar. Með þetta fyrir augum áleit þingið þá, að vel væri forsvaranlegt að leggja ofurlítinn skatt á útfluttar vörur. Í sem fæstum orðum sagt, verðhækkunartollurinn 1915 var bygður á gróða. Þar eð þessu horfir alt öðruvísi við nú til dags, getur frv. þetta alls ekki verið fram komið til þess að fullnægja tilgangi þingsins 1915. Jeg get fallist á það, að útflutningstollur sje vandræða tekjugrein. En einhvern veginn verður að fá tekjur, og það er enginn hægðarleikur að finna leiðir til þess. Þingmenn gera þær kröfur til stjórnarinnar, að hún komi með einhverjar uppástungur, og með sama rjetti getur stjórnin ætlast til þess, að þingmenn bendi á einhverjar leiðir. — (S. S.: Þeir eru líka að því). Já, þeir eru að vísu að því, en á það hefir verið bent, að tilraunir þeirra ætli sjer að mistakast.

Það kom mjer á óvart, að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), — jafnathugull maður og kunnur öllum landshögum, sem jeg veit að hann er, — skyldi segja, að það væri ekki sannað, að enginn gróði yrði á framleiðslunni í ár. Mjer finst það liggja í orðum hans, að hann telji líklegt, að menn græði, en það getur enginn álitið, sem nokkuð þekkir til ástandsins, eins og það er. Jeg segi þetta ekki til þess að setja fót fyrir frv. þetta. Leiðirnar til þess að auka tekjur landssjóðs eru vandfundnar, og jeg veit ekki, hvort þessi er varhugaverðari en sumar aðrar, þótt jeg viðurkenni, að jeg hefi verið og er enn andstæður úlflutningstolli. Það mun vera rjett, sem hæstv. forsætisráðherra benti á, að hagurinn við það, að tollurinn falli niður nú, mundi lenda í höndum kaupmannanna. Jeg byggi það á viðtali, sem jeg hefi átt við stórkaupmenn, síðan afnám verðhækkunartollsins á ull var hjer til meðferðar. Það eru því miklar líkur til, að frv. þetta hafi engin áhrif á verð það, sem framleiðendur fá fyrir vöru sína. Jeg legg því ekki mikið kapp á, að vera á móti frv., þar sem er ekki heldur um lengri tíma að ræða en til 1. júlí 1918. En hitt dylst mjer ekki, að alt aðrar ástæður eru fyrir þessu máli nú en voru 1915. Þá var það tollur, sem bygðist á gróða, eins og jeg hefi þegar tekið fram, sem um var að ræða, en nú að eins útflutningstollur. Hæstv. forsætisráðherra sagði frá því, að stimpilgjaldsfrumvarpið mundi líklega ekki komast í gegn. Mig furðar á, að hann skyldi fara slíkum orðum um það. Ef stjórninni er það alvara, að útvega landssjóði tekjur, þá ætti hún einmitt að leggja sig í líma til þess að fá stimpilgjaldinu á komið. Það virðist þó sumum spor í rjetta átt. Og jeg geng út frá því, að stjórnin eigi kann ske þau ítök í mönnum hjer á þinginu, að hún mundi geta fengið einhverju áorkað, ef hún vildi styðja að framgangi málsins.

Mjer fyrir mitt leyti stendur á sama um í hvaða nefnd frv. fer. En ekkert sje jeg því til fyrirstöðu, að því verði vísað til fjárhagsnefndar, þótt hún fyrir nokkru, á öðru stigi málsins, hafi verið frv. mótfallin. Af því verður ekkert sjeð um, hvaða augum hún lítur á það nú.