15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

4. mál, samþykkt á landsreikningum 1914 og 1915

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Eftir athugasemdum yfirskoðunarmanna að dæma og eftir því, sem fjárhagsnefndin kemst næst, þá er engin reikningsskekkja í landsreikningnum 1914, en í landsreikningnum 1915 eru 3 skekkjur, sem nefndin hefir gert brtt. um og jeg skal leyfa mjer að gera stutta grein fyrir.

1. brtt. fer fram á það að færa 16. tekjulið niður um kr. 10,835,10. Þetta eru símatekjur. Villan er sprottin af því, að símatekjurnar í Reykjavík eru færðar tvisvar til tekna árið 1915.

2. brtt. fer fram á það að færa 26. lið niður um kr. 458,19. Svo stendur á, að upphæðin hefir tvisvar verið færð, bæði sem endurgreiddur sakamálskostnaður, eins og hún er í raun og veru, og sem strandkostnaður.

4. brtt. er við 14. gjaldalið, símalagningar. Þar er skekkja, sem nemur kr. 113,29, og er sú upphæð vantalin. Liðurinn á því að hækka og útgjöldin samtals um þessa upphæð.

3. brtt. er að eins afleiðing af öllum hinum brtt. Vona jeg, að jafnaðarupphæðin sje þar rjett reiknuð, kr. 405,722,43, enda má enn athuga það betur.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að taka fleira fram í þessu sambandi.