17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

51. mál, forðagæsla

Bjarni Jónsson:

Það er margt að athuga við þetta mál. Flestir finna lögunum það til foráttu, að þau nái ekki fullkomlega tilgangi sínum. Vilja þeir góðu herrar skýra mjer frá, hvaða lög ná fullkomlega tilgangi sínum? Lög ná fyrst fullkomlega tilgangi sínum, þegar enginn dirfist að brjóta þau. En hver eru þau lög, sem ekki eru brotin? Öll lög eru brotin.

T. d. vil jeg nefna hegningarlögin. Þau eru brotin og margbrotin. Það eru víst nokkuð margir menn, sem gjarnan vildu vera lausir við hegningarlögin. En er það nóg ástæða til að afnema lögin? Ef óánægja nokkurra manna ætti að vera nóg ástæða til að afnema forðagæslulögin, þá gildir það sama um hegningarlögin og öll önnur lög.

Það er undarlegt, frá mínu sjónarmiði, að menn skuli koma með slíkar röksemdir. Rjettara væri þessum mönnum að rísa upp og segja: „Nú skulum við heimta, að lögunum sje framfylgt, svo að þau nái tilgangi sínum“. Það væri sómasamlegra fyrir löggjafarþingið heldur en að hlaupa til og afnema lögin eftir fárra ára reynslu, af því að sumir óhlýðnast þeim. Reynslan í forðagæslumálinu er ekki enn fullkomin; það er ekkert fullreynt um það, hvort lögin geti náð tilgangi sínum eða ekki. Sumir eru óánægðir með lögin, en af því verður ekkert dæmt. Af hverju kemur óánægjan? Hún kemur af því, að svo má heita, sem menn sjeu beðnir um að vera óánægðir með lögin. Óánægja manna yfirleitt kemur af því, að þeir hlaupa eftir tilfinningum annara. Blöðin og ýmsir þjóðmálaskúmar biðja menn að vera óánægða með þetta eða hitt, og menn gera það fyrir þá. Jeg skal nefna eitt dæmi, máli mínu til stuðnings. Það eru þessir svokölluðu bitlingar.

Ýmsar smásálir beiðast eftir lasti kjósendanna um ýmsar smáupphæðir, sem ýmsum mönnum hafa verið veittar, og svo bergmálar harmagráturinn um alt landið. Og þetta er sú sama þjóð, sem kastar út hundruðum þúsunda handa einhverju ríkasta fjelaginu, sem nú er á Norðurlöndum. Jeg á við sameinaða fjelagið. Það, sem við höfum kastað í það fjelag, eru blóðpeningar. Það er ekki til neins að byggja ofmikið á almenningsálitinu. Það verður að vera á rökum bygt, til þess að hægt sje að byggja á því, og þingræður og þingmálafundir, sem byggja á órökstuddu almenningsáliti, er verra en gagnslaust. Við eigum ekki að hlaupa eftir bergmáli, sem sumir menn í þessari samkundu hafa vakið. Þeir hafa komið af stað hrópi gegn forðagæslulögunum, en við eigum ekki að svara því. Við eigum að reyna að sjá, hvað að er og bæta úr því, sem á vantar, en ekki hlaupa eftir gjálfri ábyrgðarlausra manna. Sumir hafa gott af að skilja betur en þeir gera, að það er töluvert ábyrgðarmeira starf að vera alþingismaður en menn alment álíta.

Það hefir verið stungið upp á að setja heimildarlög í stað almennra forðagæslulaga. Heimildarlög eru þýðingarlaus. Það getur hver hreppur komið á hjá sjer forðagæslu, ef hreppsbúar eru því samþykkir, og þeir sem ekki væru því samþykkir, mundu fljótt læra að hlýða, því að þeir, sem ekki vildu taka þátt í samtökum hreppsbúa, yrðu þá að deyja drotni sínum. (E. J.: Þingmaðurinn veit ekki, hvað hann er að segja). Rjett er það, að jeg hefi ekki enn gengið í skóla hjá hv. 2. þm. Rang. (E. J.), en hugsast getur, að jeg komi í þann skóla síðar, ef jeg kynni að heimsækja þingmanninn á leiðarþingi hans í haust.

Jeg vildi óska, að jeg þyrfti ekki oft að hlusta á aðrar eins umræður og farið hafa fram hjer í dag; þær eru Alþingi Íslendinga síst til sóma; jeg vona, að þær heyrist ekki oftar hjer í deildinni á þessu þingi.