04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

87. mál, sala á ráðherrabústaðnum

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Hv. flm.(S. S) kvað svo að orði, að jeg væri að spá því, að núverandi forsætisráðherra myndi ekki lengi hafa það sæti. Jeg spáði engu þar um, en gerði ráð fyrir, að ekki væri víst, að næsti forsætisráðherra ætti sjálfur hús. Þá sagði hv. flm. (S. S.), að lögin mætti skilja svo, að landið skyldi borga leigu fyrir bústað ráðherrans. Svo stendur ekki í lögunum, heldur að hann skuli fá leigulausan bústað hjá landinu. Þetta er í lögunum, sem búin voru til í vetur. Jeg heyri nú af ræðu hans, að hann vill telja það stórgróðafyrirtæki að selja þennan timburskrokk, sem hann var áður búinn að útmála svo við 1. umr., að ólíklegt er, að nokkur sje sá glópaldi, að vilja kaupa háu verði hjer í Reykjavík eða annarsstaðar, sem hann er búinn að lýsa svo ljelega, að ekki sje til neins fyrir landið að eiga það.

Hv. flm. (S. S.) hjelt því fram við 1. umr., að það væri sjálfsagt rjett, að landið kæmi upp bústað úr steini handa forsætisráðherra. En hvað getur hann sagt um hve langt verði þess að bíða, að byggingarefni verði svo fallið í verði, að viðlit sje að byggja?

Annars býst jeg ekki við, að fram þurfi að taka fleiri sóknaratriði gagnvart frv. þessu, sem er svo mikil fjarstæða, að það ætti að fella það orðalaust.