14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2822)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það mætti má ske í þessu sambandi minna á gömlu setninguna: „Þau tíðkast nú, breiðu spjótin“, því að þegar um þjóðjarðasölu er að ræða, er einkis látið ófreistað til að fá jarðirnar keyptar, þegar landsstjórnin vill halda í þær. Hvað eftir annað er komið með lagafrv. um þetta efni, um daginn um Hafnir, þetta einkennilega, gamla höfuðból, og nú um Helgustaði, þar sem þessi einkennilega náma er, sem varla á sinn líka. Kvöldskuggarnir eru farnir að lengjast og liðið er á þingtímann, eins og nú er á daginn, og því lítill tími til að athuga þetta. Jeg vil vona, að hv. nefnd muni eftir því, að það stendur alveg sjerstaklega á með þessa jörð, og verra er, að eignar- og umráðarjettur sje sitt í hvorri áttinni heldur en á sömu hendi, ef landið einhvern tíma vildi reka námuna.

Greinargerð frv. telur 2 ástæður. Í fyrsta lagi, að jarðir í nágrenninu hafa verið seldar, og því misrjetti, ef ekki yrði leyfð sala á þessari jörð. Þetta misrjetti er að eins orðið slagorð hjá þinginu, og það er engin sönnun fyrir því, að það væri meira misrjetti gagnvart einstaklingunum að selja ekki en gagnvart þjóðfjelaginu í heild sinni að selja. Greinargerðin giskar á, að verðið hafi þótt of lágt. Það getur vel verið, en frv. leggur líka til, að verðið verði 3/5 hærra en virðingin.

Önnur ástæðan er sú, hve vel ábúandinn hafi farið með jörðina. Það getur vel verið rjett. Jeg hefi einu sinni farið þar um í góðu veðri, og þótti fallegt þar um að litast og mannvirki töluverð. Virðingin fór fram fyrir nokkrum árum, og ábúandinn mun hafa bætt jörðina mikið síðan. Er það ekki einmitt til að sanna það tvent, að virðingarnar eru oft oflágar, og ábúendur leggja oft rækt við blettinn, sem veitir þeim lífsviðurværi, þótt þeir eigi hann ekki sjálfir? Þetta er nú almenn ástæða, en hjer er líka um þá sjerstöku ástæðu að ræða, að þarna er þessi einkennilega náma, og best, að landið eigi ekkert undir högg að sækja, ef það vill reka hana,

Jeg tel víst, að málinu verði vísað til 2. umr. og vona, að háttv. nefnd athugi þetta, sem nú hefi jeg tekið fram.