18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Framsm. (Magnús Guðmundsson); Jeg skal reyna að vera ekki langorður, en verð þó að gera nokkra grein fyrir nál. á þingskj. 73. Nefndin er öll á einu máli um það, að nauðsynlegt sje að bæta eitthvað kjör hreppstjóra. Þau hafa altaf verið vesöl, og eru auðvitað verri nú en nokkru sinni fyr.

Þótt nefndin hafi fallist á tillögur stjórnarinnar í aðalatriðunum, hefir hún þó komið sjer saman um að gera nokkrar brtt.

1. brtt. er um ferðakostnaðinn. Í stjórnarfrv. er ekki gert ráð fyrir ferðakostnaði, nema ferðast sje 10 km. á landi og 5 km. á sjó. En nefndinni þótti rjett að hafa altaf ferðakostnað, og aldrei minna en 1 kr. fyrir vegalengdir upp að 10 km. á landi og 5 km. á sjó, og hlutfallslega fyrir þá vegalengd, sem þar er fram yfir.

2. brtt. er við 7. gr. Þar eru uppboðslaun til hreppstjóra færð niður úr 25 kr. í 16 kr., en aftur gert að skyldu að greiða hreppstjóra ferðakostnað samkvæmt 4. gr. Þetta þótti í samræmi við aðra hækkun, að hækka þessi laun um helming, eða úr 8 kr. í 16 kr. Þessi borgun, 16 kr., fyrir uppboð, virðist sæmileg, þegar tekið er tillit til annarar borgunar handa þeim, t. d. úttekt. Jeg held, að hreppstjóralaun verði eftir till. nefndarinnar eins há og eftir stjórnarfrumv., að öllu saman lögðu.

3. brtt. er við 9. gr., um birting á fyrirkalli, stefnu, dómi o. s. frv. Nefndinni þótti sanngjarnt að hafa altaf sama gjald, því að verkið er altaf hið sama, hvort sem málið nemur hárri eða lágri upphæð. Landssjóður gefur eftir af gjaldinu, þegar upphæðin er undir 50 kr., en við því er varla að búast, að einstakir menn vilji yfirleitt gera hið sama.

4. brtt. er um úttekt. Nefndin leggur til að hækka gjaldið um 1 kr., eða upp í 4 kr. Þetta er vandasamt og mikið starf, og 4 kr. síst ofhá borgun.

Þá er skotið inn nýrri grein, um borgun til landskiftamanna, og er það í rjettu samræmi við úttektargjaldið.

6. brtt. er orðabreyting.

7. brtt er um nýja gr. um eftirrit og »akta«. Hingað til hefir verið greitt 50 au. fyrir hverja örk, en nefndin stingur upp á 1 kr., og 50 au. fyrir hálfa örk eða minna. Líklega þarf hjer brtt. við 3. umr., og mun nefndin athuga það, því að, eins og greinin er nú, nær hún til Þjóðskjalasafnsins, en getur ekki átt þar við í öllum greinum. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að sinni.