25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Magnús Guðmundsson:

Það er auðsætt, að þetta frv. ætlar ekki að fá góðar undirtektir. En með því að svo er, þá er það ómaksins vert að sýna mönnum þó fram á það, að það er á sanngirni bygt. Og það ætla jeg nú að reyna að gera, en hver og einn ræður, hvort hann vill sannfærast.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að það var jeg, sem átti upptökin að þessu frv. í nefndinni, og er þeim því rjettast að beina broddunum að mjer, er andæfa vilja frv. Ástæður fyrir þessu frv. eru þær, að þegar útflutningsgjald var lagt á fisk og lýsi árið 1881, þá var það gert í því skyni, að vega skyldi á móti ábúðar- og lausafjárskatti, en sá skattur hefir stigið jafnt og þjett síðan, svo að hann er nú tæplega helmingi hærri en hann var þá. Af þessu leiðir það, að ef útflutningsgjald af sjávarafurðum hefir verið rjett, þegar það var sett í öndverðu, þá er það orðið rangt nú, þannig að hæfilegt er að hækka það um því sem næst helming. Til samanburðar skulum vjer taka verðmæti sjávarafurða og landbúnaðarafurða og tökum það á landsvísu. Ef vjer tökum 6 ær, sem er 1 hndr. á landsvísu, þá er verðmæti þeirra, með 40 kr. ærin, 240 kr. Af þeim geldst í lausafjárskatt sem næst 95 aur. 6 vættir af fiski eru einnig 1 hndr. á landsvísu, en gera má nú skippundið af fiski 160 kr., og er þó ekki miðað við 1. flokks fisk. 6 vættir af fiski eru því að verði 240 kr.; með öðrum orðum, 1 hndr. af fiski jafngilda einni hndr. í ám. Í útflutningsgjald af 1 hndr. af fiski eru greiddir 48 aurar, en í lausafjártíund af hndr. í ám eru greiddir 95 aurar, svo að ef útflutningsgjaldið af fiskinum væri tvöfaldað, næmi það einum eyri meira á 1 hndr. í fiski en 1 hndr. í ám. Og er þá alveg ótalinn ábúðarskatturinn, sem beinlínis geldst til þess að framleiða þetta lausafje, svo að í raun og veru verður að greiða meira en 95 aura af 6 ám, sem sje nokkuð á aðra krónu, þegar alls er gætt.

Jeg vona, að menn sjái þetta, og að sanngjarnt er að miða við verðmæti, en ekki hvað greitt er alls og alls. Jeg viðurkenni, að borgað er meira af sjávarafurðum en af landbúnaðarafurðum í heild sinni, en það kemur til af því, að framleiðslan er miklu meiri til sjávarins en til sveitanna, og að hún borgar sig betur. En í þessu máli ber að leggja áherslu á verðmæti, en ekki framleiðslumagn. Því hefir verið haldið fram, að ábúðar- og lausafjárskatturinn væri svo lítill. Það er satt, að hann nemur ekki nema tæpum 100 þús. kr. á ári, eins og nú er, og er það ekki mikið, borið saman við útflutningsgjald af sjávarafurðum. En þetta sýnir ekkert annað en það, að framleiðslan er miklu meiri til sjávarins. Það er alveg gripið úr lausu lofti að segja, að bændur borgi ekki neitt í landssjóð; í rauninni borga þeir meira en framleiðendur til sjávar, að tiltölu. Auk þess, sem þeir nú borga helmingi meira í lausafjárskatt en sjávarframleiðendur borga í útflutningsgjald, þá hafa þeir einnig áður jafnan greitt meira, með því að verðlagsskráin hefir farið síhækkandi frá 1881, þegar útflutningsgjaldið var fyrst lagt á, svo að bændur hafa þannig árum saman borgað tiltölulega miklu meira í landssjóð en sjávarmenn. Að vísu er greidd lausafjártíund af skipum og bátum, en það er mjög lítið, og læt jeg þá tíund koma á móti ábúðarskattinum, og er það síst í óhag sjávarútveginum. Í dæmi því, er jeg tók hjer að framan, tók jeg hærra verð á fiski en meðalverð nú er, en til að vega það upp set jeg á móti alla hækkun verðlagsskrárinnar frá 1881 til þessa tíma, sem landbúnaðurinn hefir greitt, en sjávarútvegurinn losnað við, af því að útflutningsgjaldið hefir ekkert hækkað.

Um lýsið hygg jeg að líkt verði ofan á, en get þó ekki sýnt það með tölum, af því að mjer ekki kunnugt um verð þess.

Þetta ætti að nægja til þess að sýna, að frv. er sanngjarnt. Það getur verið, að menn sjeu á móti auknu útflutningsgjaldi yfirleitt, en menn geta ekki verið andvígir frv. vegna þess, að það sje ósanngjarnt.

Hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) sagði, að menn ljetu eiginhagsmuni sína leiða sig í þessum málum. Jeg veit ekki, hvert þessu var stefnt, hvort því var stefnt til fjárhagsnefndarinnar eða ekki. Ekki getur því verið stefnt til mín, með því að jeg hefi ekki framleiðslu, hvorki til lands nje sjávar.

Það gleður mig að heyra, að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tekur í þann streng, sem hann hefir; hann er sjálfur sjávarútvegsmaður og hefir til að bera þekkingu á öllu, sem hjer að lýtur. En hann komst í ræðu sinni að alveg sömu niðurstöðu sem jeg hafði komist að með útreikningi mínum, með því að miða við verðmæti, og það er sá eini rjetti mælikvarði. En það, að sjávarútvegurinn greiðir meira í landssjóð en landbúnaðurinn, stafar af því, að til sjávarins er framleiðslan meiri og borgar sig betur. En það er þá einni ástæðu meira í þá átt að hlynna að landbúnaðinum, með því og, að ekki verður því neitað, að þegar í harðbakkann slær, þá verður landbúnaðurinn og hefir verið til þess að halda þjóðinni uppi.

En í þessu frv. felst ekkert annað en sanngirniskrafa um það, að báðir höfuðatvinnuvegir landsbúa beri tiltölulega jafnhátt gjald.