06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Guðjón Guðlaugsson:

Hv. flm. þessa máls (M. T.) fræddi þessa hv. deild um það, að Ísafjarðarkaupstaður hefði eitt sinn verið hluti úr Eyrarhreppi. Mjer virðist sú upplýsing vera álíka mikilsverð og að hann hefði sagt frá því, að Reykjavik hefði eitt sinn verið hluti úr Seltjarnarneshreppi. Það er algerlega rjett, en þó hefir ekki verið farið fram á að sameina Reykjavík og Seltjarnarneshrepp. Hv. flm. (M. T.) upplýsti enn fremur, að mál þetta væri fram komið fyrir eindregið fylgi manna frá Ísafirði og Eyrarhreppi. Mjer hefir verið sagt, að málið hafi verið felt í hreppsnefndinni með jöfnum atkvæðum. Ekki verður eiginlega sagt, að það beri vott um sjerstaklega einhuga óskir. Annars er þetta mál að öðru leyti æði alhugavert. Í fyrsta lagi er vert að athuga, hvort það standi til eða það eigi við, að þingið taki málið til meðferðar, þar sem gengið hefir verið fram hjá sveitarstjórnunum, sem um slík mál eiga að fjalla. Hingað til hefir það verið siður, að slík mál gengi frá hreppsnefnd til sýslunefndar, og þaðan til stjórnarráðsins, Málið fór svo í hreppsnefndinni, sem jeg hefi bent á, og sýslunefndin ræddi málið alls ekki, heldur frestaði því til næsta fundar. Jeg vil leyfa mjer að minna á það, sem stendur í 3. gr. sveitarstjórnarlaganna. Hún hljóðar svo: „Stjórnarráðið hefir heimild til að skifta hreppi, sameina hreppa og breyta hreppamörkum. Eigi má neina slíka breytingu gera, nema eftir beiðni hreppsnefnda þeirra, sem hlut eiga að máli, og meðmælum sýslunefndar, nema þegar svo stendur á, sem í 4. gr.“ Og í 4. gr. er það eitt tekið fram, að kauptún eða þorp, sem hefir 300 íbúa eða fleiri, hafi rjett til þess að fá sjerstaka sveitarstjórn og verða hreppur fyrir sig. Meðmæli sýslunefndar þarf með öðrum orðum ekki þegar skifta á hreppi undir þessum sjerstöku kringumstæðum, en ávalt annars. Og þegar þetta er athugað, og að sýslunefndin hefir málið til meðferðar, þá er það nokkuð hart, að hlaupið skuli vera fram hjá henni og stjórnarráðinu og málinu kastað inn á Alþingi, sem áreiðanlega hefir margt nauðsynlegra að starfa en að fást við þetta. Jeg gæti enn fremur mint á 72. gr. sveitarstjórnarlaganna í þessu sambandi. Hún hljóðar svo: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sýslu sjerstaklega, til lykta ráðið fyr en álits sýslunefndar þar hefir verið leitað um það“. Vitanlega má hártoga þetta og segja, að álits sýslunefndar hafi verið leitað, en það verður nokkuð lítilsvirði, þegar ekki er beðið eftir svarinu frá henni. Sýslunefnd frestaði málinu með 8 atkv. gegn 2.

Mjer skilst svo, sem að hv. flm. (M.T.) teldi þetta mikið nauðsynjamál, og verð jeg þá að segja, að flest mál fara nú að gerast nauðsynjamál. Ef nauðsyn ber til að innlima fjarliggjandi sveitarfjelög í önnur, þá er eins sjálfsagt að innlima Hafnarfjörð í Reykjavík, því að þó að vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur sje ef til vill nokkru lengri en vegleysan milli Ísafjarðar og Hnífsdals, þá eru samgöngurnar miklu betri. Mjer finst þetta alt vera svo óeðlilegt og fráleitt, að jeg skil ekki, hvernig unt hefir verið að varpa svo dökku ryki í augu Hnífsdæla, að þeir hafi getað ímyndað sjer, að þeim væri hagur í þessari breytingu. Þeim ætti að vera hagur í því að kasta öllum umráðum yfir sínum málum í hendur bæjarstjórninni á Ísafirði. Jeg geri ráð fyrir því, að þeir hafi fengið fögur loforð um svo og svo mörg sæti í þeirri stjórn, en þau loforð ná skamt. Það má fyrst og fremst blátt áfram svíkja þau, og þau ná minsta kosti ekki lengra en til þeirra manna, sem nú ráða lögum og lofum þar í landi. Annars má segja, að mikil og góð reynsla er fengin fyrir því, að oft er holt að skifta hreppum, þar sem svo er háttað, að munur er mikill á atvinnuvegum manna, eða aðrir örðugleikar á sambandinu. Slíkt hefir alstaðar orðið til blessunar, þar sem jeg þekki til. Sameiningu sveitarfjelaga þekki jeg ekki; engin reynsla er til um hana hjer á landi. En ekki er ótrúlegt, að hún verði víðast hvar til tjóns, þegar skiftingin gefst yfirleitt svona vel. Hún er vitanlega ekki til tjóns fyrir Ísfirðinga, heldur fyrir þá, sem minni máttar eru. Og vjer erum þó fyrst og fremst hingað komnir til þess að reyna að bera blak af þeim, sem máttarlitlir eru, eða hafa ekki vit á að fara með sín eigin mál.

Eins og mönnum er kunnugt er Hnífsdalur á öðrum kjálkanum við Skutilsfjörð. Jeg hefði vel getað skilið, að Hnífsdalur hefði viljað fá sjerstaka sveitarstjórn í sínar hendur, og sagt þá skilið við Eyrarhrepp, enda er fólksfjöldi þar svo mikill, að íbúarnir hefðu getað heimtað slíka breytingu samkvæmt lögum. Þá er Arnardalur á hinum kjálkanum. Hann er ekki svo fólksmargur, að hann geti gerst sjálfstætt ríki, eins og Hnífsdalur, en hann hefir heldur alls ekkert gagn af því að sameinast Ísafirði. Þá er að lokum miðkaflinn, botninn á firðinum. Jeg skil það vel, að Ísfirðingum sje mikið í mun að ná honum undir sig, því að þar er landrými gott. En nú vill einmitt svo til, að sá hluti Eyrarhrepps er mest á móti sameiningunni. Þar eru menn algerlega mótfallnir þessum bersýnilega barnaskap. Þeir vita, að meiri líkindi eru til þess, að þetta verði stórskaðsamlegt heldur en gagnlegt, og er jeg þeim fyllilega sammála í því efni. Jeg tel þess vegna langrjettast að vísa málinu frá, eða að fella það þegar við þessa 1. umr., því að það á ekkert erindi lengra á þessu þingi.