23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í C-deild Alþingistíðinda. (2994)

124. mál, löggæsla

Frsm. (Magnús Torfason):

Við síðustu umræðu þessa máls kom það í ljós, að hv. deild fanst frv. fara ofdjúpt í landssjóðsvasann. Samkvæmt þeim bendingum hefir meiri hluti allsherjarnefndar leyft sjer að koma fram með brtt., sem eiga að verða til þess að nema þennan geig burt. Jeg hafði hugsað mjer, að þau ákvæði, sem brtt. setja, hefðu verið sett í fjárlögin. En þar sem hv. deild óskaði fremur, að þau væru beint tekin fram í lögunum, sá nefndin ekki ástæðu til að leggjast á móti því. Öðru hefi jeg ekki við að bæta fyrri ræður mínar og nefndarálit meiri hluta allsherjarnefndar, en vænti þess, að frv. verði vel tekið, eins og það nú er orðað.