04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

124. mál, löggæsla

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eftir þeim undirtektum, sem frv. þetta fjekk við 1. umr., mun vera óþarfi að fjölyrða um það.

Eins og nál. sýnir ræður allsherjarnefnd til að fella frv., eins og sakir standa nú. Eins og siglingum er nú háttað sýnist engin bráð þörf á aukinni löggæslu utan Reykjavíkur. Og með lögum þeim um skifting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík, sem afgreidd hafa verið frá þinginu, hefir verið bætt úr þörf þeirri, er þótt hefir vera á aukinni löggæslu í Reykjavík, — að minsta kosti í bráð. Það er einn hinn óheppilegasti tími að koma með frv. nú, og jeg er hissa, að það skyldi komast gegnum hv. Ed. Þar með er ekki sagt, að ekki geti síðar orðið þörf á lögum slíkum sem þessum, og að fyrirkomulagið, sem hjer ræðir um, geti ekki verið heppilegt, en það liggur ekki á þeim nú. Það er undarlegt, að háttv. Ed. skyldi fara að

taka eina sýslu (Vestmannaeyjasýslu) út úr og vilja auka löggæslu í henni, en engri annari, því að þó að þar sjeu miklar siglingar á venjulegum tímum, þá er þó hvergi hægara um löggæslu en þar.