02.08.1917
Efri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Guðjón Guðlaugsson:

Það er fjarri því, að jeg telji mig mann að minni, þótt hv. flm. (M. T.) telji mig vera forsjármann Ísafjarðar, en nú vill svo til, að hann telur sjálfan sig til þess kjörinn og af forsjóninni sjerstaklega til þess valinn að vera forsjármaður Ísfirðinga. Og þar sem við erum nærfelt aldrei samdóma, þá sje jeg ekki, að við getum verið það báðir, og úr því að hann viðurkennir yfirburði mína, væri það næst fyrir hann að rýrna sætið. Hv. flm. (M. T.) talaði oft um það, að jeg væri Strandamaður. Það hefir næsta litla þýðingu. Jeg er ekki síður þingmaður Ísfirðinga en Strandamanna, nema framar sje. Og þar sem jeg er kunnugur á Ísafirði, mun jeg reyna að gagna þeim með þingsetu minni.

Það, sem jeg sjerstaklega vildi svara, og álít vera alt að óskammfeilni, ef nefna má svo stórt orð, er að bera það á meðborgara sína, að þeir hafi meinað mönnum að nota bryggjurnar; því vil jeg mótmæla fastlega. Og þar sem sami hv. þm. (M. T.) sagði, að af þeim ástæðum hefði fiskverð á Ísafirði verið 6 aurum lægra fyrir tvípundið en í Reykjavík, hlýt jeg og algerlega að mótmæla og telja staðlaus orð, til þess er annað er sannað.

Á Ísafirði eiga þær hafskipabryggjur Ásgeirssonsverslun og Edinborgarverslun, sem stór skip geta legið við, en auk þess eru þar aðrar bryggjur, Tangsverslunar o. fl., sem jeg hygg, að öllum hafi verið frjálst að nota. Jeg vil því ekki láta því ómótmælt, að það hefði nokkru sinni ríkt slík meinsemi, sem virtist liggja í orðum hv. flm. (M. T.). Það er mjer því með öllu óskiljanlegt, að það hafi átt sjer nokkur einokun stað í sambandi við bryggjurnar á Ísafirði.

Það hefði verið skiljanlegt, að slíkt hjal hefði átt sjer stað á meðan verslun Ásg. Ásgeirssonar átti ein hafskipabryggju á Ísafirði, en eftir að Edinborgarverslunin byggði þar aðra hafskipabryggju, og fór beinlínis að keppa við hina verslunina og aðrar verslanir þar um fiskkaup og verslun, þá gat slíkt ekki átt sjer stað. Það sjá því allir, að þegar nýr keppinautur bættist við (Edinborg, sem nú er orðin eins góðs manns eign) milli hæsta og neðsta kaupstaðarins, svo að jeg noti ísfirsk orð, er hv. flm. (M. T.) hlýtur að skilja, er það fremur til þess að útiloka einokun en skapa hana.

En þetta snertir ekki beinlínis málið. Jeg er alls ekki mótfallinn því, að málið

fari til nefndar, en jeg vil skjóta því til hennar að athuga eftir föngum, hvar rjettast sje að byggja hafskipabryggjuna.

Hv. flm. (M. T.) mintist á það, að það væri mikill straumur fyrir utan Eyrina, og það er rjett, en ætli það yrði ekki hið sama þegar þar er höfn orðin, að hún yrði eins og Pollurinn nú, en straumurinn yrði fyrir utan hana? Þetta verður alt að athuga, og vænti jeg, að nefndin geri það.