04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (3091)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Jónsson):

Tilgangur flutningsmanna þessarar tillögu er að gera afgreiðslu landssjóðsvöru greiðari og kostnaðarminni en nú er. Bjargráðanefndin hefir athugað till., en ekki treyst sjer að mæla með því, að einum manni undanteknum, að hún verði samþykt, aðallega af þeirri ástæðu, að nefndin hefir litið svo á, að það væri óþægilegt fyrir landsstjórnina að standa í beinu sambandi við sveitarstjórnirnar. Hún telur óhjákvæmlegt vegna innheimtunnar að hafa sýslumenn að milliliðum. Mjer er kunnugt um það, að landsstjórnin hefir sent vörur á hafnir, þótt sýslumenn hafi ekki átt þar heima. Hafa svo sveitarstjórnirnar fengið þær eftir fyrirsögn sýslumanna. Nefndin vonar því, að stjórnin haldi áfram

að ljetta fyrir mönnum á þennan hátt með útvegun á landssjóðsvörum. Með þessu lagi er sveitarstjórnunum í fáum tilfellum trafali gerður, og seinlegra er þeim að snúa sjer til landsstjórnarinnar heldur en beint til sýslumannsins, sem venjulega er nær. En stjórninni er áreiðanlega óþægilegra að hafa bein viðskifti við sveitirnar, og erfitt fyrir hana að meta, hvers sveitirnar þurfa með.

Af þessum ástæðum vill meiri hluti nefndarinnar vísa málinu til stjórnarinnar, í þeirri von, að hún geri það, sem hún getur til þess að greiða fyrir um afgreiðslu á landssjóðsvörum.