03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er nú komið hingað aftur frá háttv. Ed., og er talsvert breytt frá því sem var, eins og sjá má. Jeg ætla ekki að fara neitt út í þessar breytingar sjerstaklega, því að það er tekið fram á þgskj. 530, hverjar þær sjeu. Og eins og það ber með sjer hefir allsherjarnefnd, að einum undanteknum, orðið ásátt um að mæla með því, að frv. verði samþykt, eins og það liggur nú fyrir. Frá þeim nefndarmanni, sem skrifaði undir nál. með fyrirvara, háttv. þm. Borgf. (P. O.), er komin fram brtt. á þgskj. 567, sem jeg vildi fara nokkrum orðum um. Þessi brtt. fer í þá átt, að borgun til hreppstjóra fyrir úttekt á jörðum og fyrir landskifti verði færð úr 5 krónum, eins og ákveðið er í frv., niður í 4 kr. Nefndin, eða öllu heldur meiri hluti hennar, leit svo á, að ekki væri ástæða til að fara að hrekja málið milli deilda, fyrir ekki meira atriði en hjer er um að ræða. Og hvað mig snertir persónulega, þá hefi jeg frá upphafi litið svo á, að 5 kr. væri hæfilegt. Því að það er kunnugra en frá þurfi að segja, að úttekt jarða er talsvert vandasamt verk, og engan veginn ofborgað með 5 kr. Enda mun hv. flutnm. brtt. (P. O.) ekki telja þetta ofhátt í raun og veru, heldur álítur hann, að þetta gjald muni koma ofþungt niður á ábúendum. En þetta er smáatriði, og ekki vert að hrekja málið milli deilda fyrir það, eins og jeg tók fram áður.

Líkt er að segja um landskifti, því að þau munu vera jafnvandasamt verk og úttektin. En eins og frv. er orðað frá háttv. Ed. getur það verið vafamál, hvort ætlast er til, að landsskiftamaður eigi að fá 4 kr. fyrir landskiftin öll, eða þá 4 kr. á dag. En jeg þykist vita, að það sje meiningin, og hjer sje átt við dagkaup, því að, eins og menn vita, þá geta landskifti oft staðið 2—3 daga. En jeg tek þetta fram til þess, að þetta geti ekki orkað tvímælis. Þetta er greinilega tekið fram í brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.), svo að því leyti er hún góð, en nauðsyn á brtt. um þetta tel jeg ekki.

Jeg ætla að segja það strax, að jeg býst ekki við að taka til máls, þótt hv. þm. Borgf. (P. O.) mæli með till. sinni, því að jeg veit, að hann hefir ekki aðrar ástæður fram að færa fyrir till. en þær, sem jeg hefi nefnt.