03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í C-deild Alþingistíðinda. (3170)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og háttv. deildarmenn muna komu fram nokkrar aðfinslur við 7. gr. frv. við 2. umr., aðallega frá hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Fjárhagsnefnd hefir nú tekið þessar aðfinslur til yfirvegunar, og árangurinn hefir orðið sá, að nefndin ber fram brtt. við 7. gr., á þgskj. 250. Brtt. þessi gengur aðallega út á að bæta inn stimpilgjaldi á erlendum víxlum, sem sendir eru til innheimtu bönkum hjer. Víxlar þessir nema miljónum á hverju ári. Allur kostnaður við greiðslu víxlanna fellur á eigandann, sem venjulega er útlendingur, svo að á þann hátt næst í töluverðar tekjur handa landssjóði, án þess að leggja álögur á landsmenn. Er gott að geta gert sem mest að því, og sjálfsagt að gera það, þegar hægt er að koma því við. — Svo er annað atriði brtt. það, að undanþiggja tjekkávísanir öllu stimpilgjaldi. Þessi breyting er gerð eftir bendingu hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), sem nefndin hefir fundið ástæðu til að taka til greina, þar sem tjekkávísanir eru alment notaðar sem gjaldmiðill, í stað myntar eða seðla, og hljóða oft um smáupphæðir. Að sjálfsögðu rýrast tekjurnar af stimpilgjaldinu í heild sinni dálítið við þessa undanþágu, en stimpilgjaldið af útlendu víxlunum bætir þá rýrnun ríflega upp, svo að brtt. í heild sinni verður heldur til að auka en minka tekjurnar.

Þá er og komin brtt. frá hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), sem nefndin hefir ekki getað aðhylst. Sú brtt. gengur út á það, að sýningarvíxlar skuli ekki vera stimpilskyldir. Nefndin hefir ekki getað sjeð neina verulega ástæðu til að undanskilja þessa víxla. Þeir, sem gefa þessa víxla út, eru vanalega efnaðir menn, sem geta borgað strax og þurfa ekki á lánstrausti að halda. Virðist því lítil ástæða til að láta þá sleppa við stimpilgjaldið. Fyrir hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) vakir eflaust það, að þessa víxla beri að skoða sem „kontant“borgun, alveg eins og tjekka, og skal jeg játa, að þetta er nokkur ástæða. Jeg fyrir mitt leyti geri það ekki að kappsmáli, að brtt. verði feld, en nefndin í heild sinni gat ekki fallist á hana. Og þótt nokkuð mæli með því, að farið sje með sýningarvíxla eins og tjekka, þá er þó dálítill munur. Enda geta þeir, sem nota sýningarvíxla sem „kontant“ borgun, alveg eins gefið út tjekk og þannig komist hjá stimpilgjaldinn.