10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í C-deild Alþingistíðinda. (3324)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil bæta því við það, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) tók fram, að jeg sje ekki betur en að, eins og 1. gr. er orðuð, geti sá maður, sem vill selja ábúðarjörð sína, ekki búið á henni áfram, en slíkt ákvæði er, að mínu áliti, alveg óhæft. Þetta er ofmikil skerðing á eignarrjettinum. Það er ekki svo sjaldgæft, að jarðareigandi þurfi að selja ábúðarjörð sína, en vilji þó búa á henni áfram, en eftir orðalagi frv. er ekki nema um tvent að velja fyrir hann, annaðhvort að láta jörðina óselda, hve meinlegt sem honum er það, eða hrekjast burt af henni að öðrum kosti. Ef þetta er ekki meining hv. landbúnaðarnefndar, þá þyrfti að bæta inn í 1. grein fyrirmælum um það, að ákvæði greinarinnar næðu ekki til þess, er seljandi vildi sjálfur halda áfram ábúð á jörðinni. Slíkt ákvæði útilokar það ranglæti, að menn verði að hrekjast burt af ábúðarjörðum sínum fyrir þá eina sök, að þeir hafa neyðst til að selja, þótt þeir bæði vildu og gætu búið áfram.