14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í C-deild Alþingistíðinda. (3413)

49. mál, vegir (Héraðsbraut)

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Í frv. því, er hjer liggur fyrir, er farið fram á, að Fagradalsbrautin verði framlengd frá Egilsstaðaskógi yfir Eyvindará, um Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá, alt að Krosshöfða. Fagradalsbrautin liggur um óbygðir; að henni er mikil samgöngubót fyrir efra hluta Fljótsdalshjeraðs. Upphjeraðsbúar hafa mikil not af henni, en Úthjeraðsbúar lítil. Lagarfljót er á Upphjeraði, eins og menn vita, eins og fjörður, og svo djúpt, að gengt væri hverju stórskipi, og er það því sjálfgerð braut til flutninga upp eftir Hjeraðinu, enda hafa Hjeraðsmenn, er búa upp með Lagarfljóti og fyrir ofan botn þess, flutt vörur sínar frá enda Fagradalsbrautarinnar með mótorbát nú um nokkra ára skeið. En neðri hluti fljótsins er ekki skipgengur. Úthjeraðsmönnum verða því lítil not að brautinni. En verði sú braut, sem hjer er fyrirhuguð, lögð, verður þeim miklu meiri not að Fagradalsbrautinni. Sveitirnar, sem brautin lægi um, eru fjölbygðar og blómlegar, en vegir þar slæmir. Það er einn mesti bagi þessara sveita, hve erfitt er þar um allar samgöngur og aðflutninga.

Við Hjeraðsflóa er engin þolanleg höfn. Helsta lendingin er við Krosshöfða. Þar var um tíma rekin verslun, og enn setja verslanir, frá Borgarfirði og Seyðisfirði, vörur upp þar. Komist þessi braut á, væri hægt að aka á vögnum bæði frá Reyðarfirði og Krosshöfða um Úthjeraðssveitirnar austan Lagarfljóts. Þetta er eitthvert stærsta framfaramál hjeraðsins.

Búið er að leggja sýsluveg nokkrum hluta þessarar leiðar, og þyrfti því ekki mikið að bæta hann til að gera hann eins og akvegir eru úr garði gerðir. Um kostnaðinn get jeg ekki sagt; jeg gat ekki náð í landsverkfræðinginn áður en jeg bar fram frv. þetta. En jeg vona, að nefnd sú, er við málinu tekur, leiti sjer nákvæmra upplýsinga um alt, sem að kostnaði lýtur.

Við flutningsmennirnir búumst ekki við, að neitt fje verði veitt til þessarar brautar í fjárlögum, en vonumst til, að hægt verði að byrja hana strax og rýmkar um fjárhaginn.

Sveitir Fljótsdalshjeraðs eru meðal blómleguslu sveita landsins, og mjer blandast ekki hugur um, að hjer á landi á að gera eins mikið að vegabótum og fjárhagur frekast leyfir. Ýmislegt bendir til, að verslun Fljótsdalshjeraðs dragist öll upp að Lagarfljótsbrúnni, en nauðsyn fyrir akveg út eftir Hjeraðinu minkar ekki fyrir það.

Jeg legg til, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar.