04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í C-deild Alþingistíðinda. (3657)

75. mál, endurskoðun vegalaganna

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Jeg skal ekki segja nema örfá orð. Mjer skildist á hv. 1. þm. Árn. (S.S.), að hann hafi skilið orð mín svo, að ekkert væri hægt að gera og ekkert ætti að gera. Jeg vona, að þingsskrifararnir hafi náð orðum mínum og orðalagi svo vel, að það komi fram á sínum tíma, að þm. (S.S.) hefir ekki skilið orð mín rjett. Þar sem þm. (S.S.) talaði um, að landsverkfræðingurinn væri nú farinn að hallast að því, að lögin verði endurskoðuð, skal þess getið, að það hefir ekki komið fram í neinu, sem frá honum hefir komið til stjórnarinnar. Hvað nýja verkfræðinginn snertir, þá er hann ekki kominn svo langt í rannsókn þessa máls enn þá, að hann geti látið álit sitt í ljós.

Að lokum skal jeg geta þess, að ef rökstudda dagskráin á að skiljast svo, að hún sje nokkurskonar ofanígjöf til stjórnarinnar, þá verð jeg að vera henni mótfallinn.