13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Aðalspurningin í máli þessu er sú, hvort leggja skuli nokkurt gjald til landssjóðs á verslunina. Jeg hefi þegar játað það, að jeg er ekki harður á, að svo verði gert, en sje gjaldið nokkurt, tel jeg það ekki mega vera minna en gert er ráð fyrir í frv.

En það er hæstv. landsstjórn sjálf, sem hefir leitt þann asna inn í herbúðirnar, því að í hinu upphaflega frv. hennar er það »princip«, að skattur verði á lagður.

En verði nú brtt. háttv. þm. Ak. (M. K.) samþykt, þá verður fje það, sem skatturinn nemur, hreinasta smáræði fyrir landssjóð, og væri því hreinlegra að hafa hann engan.

Það var að vísu rjett, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) drap á, að verslunin mundi aukast. Jeg benti líka á það í fyrstu ræðu minni, að líkindi væru til þess, þótt ekki sje hægt að ráða það af skýrslum þeim, er jeg hefi frá síðastliðnum árum. En þótt nú svo yrði, þá mundi skattur þessi ekki nema meiru en 30—40 þús. kr. og getur það engan veginn stórfje talist fyrir landssjóð.

Jeg hefi aldrei hugsað, að tilgangur stjórnarinnar með skatti þessum hafi verið sá, að íþyngja sjávarútveginum meir en nú á sjer stað; býst jeg við, að vakað hafi fyrir henni, að fást myndu svo góð kaup á steinolíunni, að kaupendur yrðu betur úti en nú gerist, þrátt fyrir skatt þennan.

En jeg álít þetta 2 eða 4 kr. gjald svo smávægilegt atriði, að ekki taki að halda á lofti löngum deilum um það, og jeg lít svo á, að betra sje að láta gjaldið falla niður en lækka það niður í 2 kr.

Skal jeg svo ekki teygja meir úr umræðunum um smáræði þetta.