02.07.1917
Neðri deild: 1. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (3777)

Stjórnarfrumvörp lögð fram

Því næst las forseti upp brjef frá forsætisráðherra, þar sem hann tilkynnir, að hann muni leggja fyrir deildina í dag þessi frumvörp af hálfu landsstjórnarinnar:

1. Frv. til laga um samþykt á landsreikningunum fyrir árin 1914 og 1915.

2. — til fjárlaga fyrir árin 1918 og 1919.

3. — til fjáraukalaga fyrir árin 1914 og 1915.

4. — til fjáraukalaga fyrir árin 1916 og 1917.

5. — til laga um dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunarmönnum landssjóðs.

6. — til laga um laun hreppstjóra og aukatekjur m. m.

7. — til laga um breyting á lögum nr. 17, 9. júlí 1909, um almennan ellistyrk.

8. — til laga um einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu.

9. — til laga um fyrirhleðslu fyrir Þverá og Markarfljót.

10. — til laga um breyting á og viðauka við lög 1. febrúar 1917, um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum.

11. — til laga um frestun á framkvæmd laga nr. 31, 20. okt. 1905, um sölu þjóðjarða, og laga nr. 50, 16. nóv. 1907, um sölu kirkjujarða.

Forsætisráðherra (J. M. ): Jeg leyfi mjer að leggja fyrir hv. deild þau 11 frv., sem hæstv. forseti taldi upp.

Það hefir verið venja á undanförnum þingum, að ráðherra hefir gert grein fyrir fjárhag landsins, um leið og stjórnarfrumvörpin voru lögð fram. Ráðuneytið hefir nú litið svo á, sem rjettara væri að bíða með þessa greinargerð þar til er fjárlögin koma til 1. umr., sem væntanlega verður eftir 2 daga, og mun þá fjármálaráðherrann gefa yfirlit yfir þetta, fjárhag landsins.

Jeg býst við því, að um miðja þessa viku verði hægt að leggja fyrir þingið skýrslu um ófriðarráðstafanir, og sje því ekki heldur ástæða til þess að minnast á þau efni nú.