07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Matthías Ólafsson:

Jeg gat sparað mjer að standa upp, því að háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) er búinn að segja flest, sem jeg vildi sagt hafa. En jeg vildi þó gera grein fyrir, hvers vegna jeg fylgdist ekki með hinum í fjárveitinganefndinni. Jeg gat ekki sjeð, að nægileg gögn væru fyrir hendi, en háttv. samnefndarmenn mínir þurftu ekki 5 mínútur til að ákveða sig. Eftir minni skoðun ættu þm. ekki að leyfa sjer að greiða atkv. um málið fyr en þeir hefðu kynt sjer staðháttu. Alt er ljósara þegar maður hefir sjeð staðinn með eigin augum heldur en þegar verður að fara eftir sögusögn einni og henni kann ske óglöggri. Jeg efa ekki, að skýrslur verkfræðinganna sjeu gefnar eftir bestu sannfæringu, en reynslan hefir sýnt, að þeim skjátlast oft. Það dugir ekki, að einn verkfræðingur geri áætlanir, heldur ætti að láta alla verkfræðinga landsins segja álit sitt um fyrirtækið. Vatnsþunginn hefir aldrei verið mældur; það veit því enginn, hve sterkir garðarnir verða að vera. Ástæða væri líka til að draga framkvæmd verksins, þar til fjárhagurinn batnar, ef líkur eru til, að landið verði ekki fyrir teljanlegum skemdum þangað til.

Það verð jeg að segja, að verðhækkunarskattur af jörðum þeim, sem vernda á og bæta með fyrirhleðslunni, er ekki mikils virði í mínum augum, og því trúi jeg best, að landssjóður verði aldrei feitur af honum. Hin sama hugsun gægist og óneitanlega fram hjá háttv. landbúnaðarnefnd, því að ekki tekur hún dýpra í árinni um hann í áliti sínu en svo, að hún segir, að rjett virðist, að landsstjórnin hlutist til um, að verðhækkunarskattur verði á sínum tíma greiddur landssjóði af jörðunum á þessu svæði, sem bótum taka og varðar eru skemdum. Það má með sanni segja, að hjer er gætilega í sakir farið. Það er ýmislegt fleira athugavert í nefndarálitinu, þótt eigi sje það langt, svo sem þegar talað er um ábyrgð þá, sem hvíli á verkfræðingunum, og að alt verði að byggja á viti þeirra og forsjá. Satt er það, að mikið verður við það að styðjast, en þó höfum vjer dæmin þess, að valt er að fulltreysta þessu, og að þá getur einmitt brostið þekkingu á staðháttum og fleiru, sem aðrir hafa til að bera. Það mætti ætla, að það mundi öflugt meðal til að knýja verkfræðingana til að vanda sig sem allra mest og fara sem allra gætilegast í áætlunum sínum, að þeir gætu búist við því að missa álit og traust manna, ef fyrirtæki þau, sem þeir stjórna, mishepnuðust. En svo sýnist, að hjer á landi þurfi þeir ekki því að kvíða. Eða hve oft hefir verkfræðingum hjer ekki mishepnast, og þeir þó eigi mist álit sitt? Þetta, sem jeg segi hjer, má ekki skilja sem ákúrur til neins einstaks manns.

Að endingu vil jeg brýna það fyrir háttv. deild, að það þarf vel að vanda, sem lengi á að standa, og jeg held því fram, að þetta mál þurfi að rannsaka miklu betur en gert hefir verið, og að það sje gert af rasanda ráði, ef veitt er stórfje til fyrirtækis þessa, ekki betur undirbúið en það er.