07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði mjer að ræða ekki málið frekar, en sá þjóðarfulltrúinn, sem síðast talaði (J. J.), sagði, að það sæti ekki á þm. Dala. að setja sig á háan hest, því að hann og aðrir þingmenn hefðu í mörg ár með atkv. sínum reynt að gera hann að sjálfstæðum manni. Þetta þykir mjer svo viturlega talað af háttv. 1. þm N.-M. (J. J.), að jeg get ekki stilt mig um að benda kjósendum hans á, hvað hjer liggur til grundvallar. Hann hefir viljað gera mig sjálfstæðan á þann hátt, að jeg yrði jábróðir hans, og greitt mjer atkv. til þess, að jeg greiddi honum atkv. mitt í staðinn. Hjer liggur því til grundvallar hjá 1. þm. N.-M. (J. J.) hugsun um atkvæðaverslun. En það færi nú að verða undarlegt, þetta sjálfstæði, ef hver þm., sem greitt hefir þm. Dala. atkv., heimtaði af honum sömu smáþægindi. Þm. Dala. yrði þá að fara að verða á jafnmörgum skoðunum og 1. þm. N.-M. (J. J.), en það liggur nú víst ekki fyrir honum. Þetta vildi jeg athuga út af orðum háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.), svo það kæmi skýrt fram, hve ant honum er um hag landsins og kjósenda sinna, er hann greiðir þm. Dala. atkv., til þess eins, að kaupa sjer þar jábróður fyrir landsfje.