27.08.1917
Efri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Frsm. (Hannes Hafstein):

Það var að eins eitt atriði, sem háttv. samnefndarmaður minn (M. T.) gat ekki um, sem jeg vildi leyfa mjer að minnast á nokkrum orðum.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hafði það á móti 2. brtt. nefndarinnar, að hjer væri um óskyld embætti að ræða, þar sem væri bæjarfógetaembættið annars vegar og yfirdómaraembættin hins vegar.

Jeg vil leyfa mjer að benda á í því sambandi, að ákvæði um laun yfirdómara hafa staðið í sama frv. og ákvæði um laun biskups og amtmanna.

Eru það skyldari embætti heldur en embætti tveggja dómara, sem búa í sama bænum, við sömu lífskjör? Nei. Störf þessara manna eru svo náskyld, að til mála hefir komið að leggja dómarastarfið undir yfirdóminn og sameina þannig störfin.

Sami háttv. þm. (E. P.) gerði ráð fyrir, að breyting þessi mundi geta riðið málinu að fullu í háttv. Nd. Jeg get ekki sjeð neina ástæðu til þess, að svo hraklega fari. Ef háttv. Nd. getur ekki felt sig við hana, þá er það hægur vandi fyrir hana að sníða burt viðaukann og senda frv., svo breytt, hingað aftur.