01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson); Það er stutt og gagnort frv., það er hjer liggur fyrir háttv. deild.

Það er um það eitt, að nema úr gildi lög nr. 21, frá 20. okt. 1905, um skýrslur um alidýrasjúkdóma. En þótt þessi lög sjeu hjer ein nefnd á nafn, þá má enginn draga þá ályktun af því, að þetta sjeu hin einu lög landsins, er eigi þessa meðferð skilið. Síður en svo. Jeg hygg, að það væri þarfur dagur, ef háttv. Alþingi vildi eyða einum degi til þess að nema úr gildi má ske tugi laga, sem að eins eru pappírsgagn, og þessi lög eru ekki fremur kjörin til slátrunar en mörg önnur, þótt þau hafi orðið fyrir valinu nú.

Þessi lög hafa, eins og mörg önnur lög, verið sett á fót með mjög góðum tilgangi, og það voru líkur til þess, að þau gætu borið árangur. Það var líklegt, að með því að safna skýrslum um alidýrasjúkdóma mætti fá einhvern grundvöll til að byggja á um sjúkdóma, svo að hægt væri að vita nánar um, hvaða sjúkdómar gerðu mest tjón, hvort þeir væru staðbundnir o. fl. En reynslan hefir sýnt það, að bæði þeir, sem áttu að safna skýrslunum, og þeir, sem áttu að gefa þær, hafa vanrækt þær mjög mikið; en það er ekki nóg með það, heldur hafa skýrslur þær, sem safnað var, reynst óábyggilegar, og þær hafa altaf farið dagversnandi. Það virðist því ekki vera annað fyrir hendi en að nema lögin úr gildi.

Það er raunar óviðfeldið að gefast upp við þarft verk, en úr því að frv. þetta hefir verið borið fram og hv. Nd. hefir samþ. það, þá virðist ekki vera næg ástæða til þess að drepa frv. og láta lögin gilda áfram, enda er það augljóst, að það þarf eitthvað að breyta til í þessu. Og þótt lögin sjeu nú numin úr gildi, þá má vel vera, að skýrslur um þetta verði lögleiddar aftur, en þá verða þau á einhvern hátt að verða betri til framkvæmda, og skýrslunum meiri sómi sýndur.

Það hefir verið stungið upp á því, að dýralæknar landsins skyldu ekki hjer eftir standa eins og líkneski, kyrrir á sama stað, heldur ættu þeir að ferðast um landið og leiðbeina bændum um alidýrasjúkdóma. Og það er ekki ólíklegt, ef svo verður, að þá, þegar menn eru orðnir alment fróðari um þessi mál, mætti aftur fara að safna þessum skýrslum, en þá ættu menn að forðast það að hafa skýrslurnar flóknar eða margbrotnar.

Það er víst að flóknar og margbrotnar skýrslugjafir hindra oft framkvæmdir málanna; þær eins og hræða menn frá verkinu, og menn halda, að það sje svo örðugt að semja þær og fullnægja kröfunum. Jeg efa það ekki, að það, hversu margbrotinna skýrslna er krafist í forðagæslulögunum, hefir mjög stuðlað að því, hversu þau eru illa framkvæmd, og þar mátti hafa skýrslurnar miklu óbrotnari og aðgengilegri, en ná þó alveg sama takmarki með þeim.

Að svo mæltu vil jeg, fyrir hönd nefndarinnar, ráða háttv. deild til að samþ. frv. Það er raunar ekki brýn þörf á því, að frv. verði samþ., því að lögin, sem nema á úr gildi, eru bæði meinlaus og gagnslaus.