14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

49. mál, styrkur og lánsheimild til flóabáta

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Í fjárlögum í fyrra var veittur 18 þús. kr. styrkur til Langanesbáts, og er það jafnhár styrkur og ætlaður er flestum öðrum flóabátum. Þessi bátur á að ganga frá Seyðisfirði til Sauðárkróks. Er það helmingi lengri leið, og miklu fleiri hafnir að koma á, en öðrum slíkum bátum er ætlað. Ekki hefir verið hægt að fá nægilega stóran bát til þess að fara ferðir þessar. Þyrfti hann að rúma minst um 80 smálestir. Tilboð hefir fengist um tvo báta, um 40 smálesta stóra. Annar er innifrosinn á Eyjafirði, en hinn getur ekki fengist nema til vor- og haustferða Hvor þessi bátur fæst ekki fyrir minni styrk, en ákveðinn er í fjárlögunum. Vildi landsstjórnin ekki sinna tilboðunum um þessa báta. Nú þótti samgöngumálanefnd það fyrirsjáanlegt, að á þessu yrði ekki ráðin bót, nema með því að skifta þessu svæði svo, að annar báturinn gengi frá Seyðisfirði til Húsavíkur, en hinn frá Húsavík til Sauðárkróks, nema þá að stærri bátur fengist, en hann er ekki hægt að fá fyrir þann styrk, sem nú er veittur í fjárlögunum. Nefndin reyndi fyrir sjer um tilboð frá útgerðarmönnum, til að halda uppi þessum ferðum í sumar. Hjá einum útgerðarmanni, Þorsteini Jónssyni, fjekst vilyrði fyrir að halda úti 1 stórum bát, eða 2, sem hvor væri þá ca. 40 smálestir, ef hann fengi 30 þús. kr. styrk.

Nefndinni er kunnugt um, að flutningaþörfin á þessu svæði er svo mikil, að ferðir Sterlings geta ekki fullnægt henni, en engin önnur skip hafa fasta áætlun á þessar hafnir. Jeg skal taka það fram, að til Grímseyjar er ekkert skip áætlað. Samgöngumálanefndin ætlaðist nú til, að Grímseyingum væri sjeð fyrir einhverjum ferðum, og er ætlun hennar, ef styrkviðbót þessi fengist, að annar báturinn komi þar við.

Um 2. lið till. skal það tekið fram, að á þinginu 1916 — 1917 var stjórninni veitt heimild til þess að lána 90.000 þús. kr. til þess að kaupa bát á Húnaflóa, sem væri alt að 100 smálestir að stærð. Þessi kaup fórust fyrir, og nú geta Húnvetningar ekki fengið svo stóran bát fyrir þetta verð. Þessi till. samgöngumálanefndar er ekki annað en endurnýjun á lánsheimildinni frá í fyrra, nema hvað stærðin er ekki til tekin, því að engar líkur eru til að fá 100 smálesta bát fyrir 90 þús. kr. En jeg skal geta þess, að Húnvetningar hafa von um að geta fengið bát, sem rúmar um 60 smálestir.

Vona jeg, að háttv. deild samþykki till. þessa.