12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Sigurður Sigurðsson:

Jeg sem annar flm. till. og við báðir erum þakklátir bjargráðanefnd, stjórninni og öðrum þm., sem hafa stutt hana. Jeg geri líka ráð fyrir, að brtt. nefndarinnar verði samþyktar. Enn fremur vona jeg, og sú von er bygð á ummælum atvinnumálaráðherra, að stjórnin láti ekki undir höfuð leggjast að hvetja bændur til að halda fundi í haust og gera ráðstafanir um ásetningu búpenings. Og vona jeg einnig, að hver góður maður, og eigi síst þingmenn, hvetji menn til skynsamlegrar ásetningar. Allir munu sjá nauðsynina á þessu, og jeg tel jafnvel hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) ekki ólíklegan til slíkrar hvatningar, ef hann á eftir að stíga fæti sínum á land í kjördæmi sínu.

Að öðru leyti skal jeg taka það fram um brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó ), að jafnvel þótt hjer væri ekki um að ræða annað en kostnað við símskeyti og annað því um líkt.sem þessar ráðstafanir hafa í för með sjer, þá tel jeg þessa heimild alveg sjálfsagða. En auk þess getur komið til mála, að stjórnin þurfi að leggja fram fje fyrir fóðurefnið, ef ekki fyrir fult og alt, þá til bráðabirgða, og verði að greiða flutningsgjald líka, uns kaupendur gætu endurgreitt þetta. Og þetta er engin frágangssök í mínum augum. Það gæti blátt áfram komið til mála, að landssjóður hlypi undir bagga með lækkun á flutningsgjaldi fyrir þá, sem miklu þurfa til að kosta til þess að ná síldinni að sjer. Mjer kemur það því kynlega fyrir sjónir, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) skuli ekki vilja leyfa þessari heimild að standa. Hann er þó enginn sparnaðarmaður, eins og hann sagði sjálfur, þegar um laun og bitlinga er að ræða, eða fjárframlög til atvinnurekstrar, sem hann vill styðja. Hann er því í ósamkvæmni við sjálfan sig, eða maður þröngsýnn, ef hann vill ekki lita lengra og styðja eins landbúnaðinn, þó að hann standi honum ekki jafnnærri. En annars munu allir skilja þennan harmagrát þm. (M. Ó.). Hann er sprottinn af því, að deildin feldi till. fyrir honum, um að veita þrem hreppum lán til kolanáms í Vestur-Ísafjarðarsýslu. En mjer virðist einkennilegt, að hann skuli láta harm sinn yfir falli till. bitna á þessu máli. Það sýnir, að hv. þm. er ekki sjálfum sjer samkvæmur, eða hefnigjarn í meira lagi.

Loks vil jeg gera stutta athugasemd í sambandi við ummæli háttv. frsm. (S. St ). Hann komst svo að orði, að síldarútvegurinn væri að mörgu leyti stoð og stytta landbúnaðarins, eða að landbúnaðurinn nyti góðs af honum. Það má til sanns vegar færa, að hann njóti góðs af honum sem aðrir. Þegar einhver atvinnugrein gengur vel, nýtur þjóðfjelagið í heild sinni góðs af henni. En landbúnaðurinn nýtur engra sjerstakra hlunninda af síldarútveginum,þó að hann gangi vel. En það er auðvitað gróði fyrir landssjóð, að allir atvinnuvegir gangi sem best. Og á þessum tímum veitir landssjóði ekki af, að síldarútvegurinn gefi sem mest af sjer.

Jeg vænti þess, að till. verði samþykt og röggsamlega fram fylgt af stjórninni. Jeg skal taka undir það með háttv. þm. N.-Ísf. (S. St ), að nefndin ætlast ekki til, að sjerstakir erindrekar verði sendir út um land, til þess að brýna fyrir mönnum að setja varlega á. En hitt vil jeg undirstrika, sem sami háttv. þm. sagði, að komið getur til þess, að ráðstafanir verði að gera til þess sjerstaklega að fækka hrossum fremur venju, bæði til manneldis og skepnufóðurs. Það er mikilsvert, að menn skilji, að hrossakjöt er ágætur fóðurbætir, og verður ekki annað betur gert við þau hross, sem þarf að slá af, en að nota þau til þess, að svo miklu leyti, sem þeirra þarf ekki til manneldis.

Okkur er nú leyft að flytja út 1.000 hross, og verða ekki keyptir nú nema valdir gripir, bæði bestu og stærstu hrossin. Og um það er ekki nema gott að segja. En hrossaræktinni er þó engin framtíðarvon að því, ef að eins úrkastið verður eftir í landinu. Þess vegna er það nauðsynleg ráðstöfun að fækka á hverju hausti úrgangshrossum, síðgotnum og litlum folöldum og tryppum og gölluðum hrossum, og mætti nota kjötið bæði til manneldis og skepnufóðurs. Nú í haust er sjerstök ástæða til þess að brýna þetta fyrir mönnum, svo að þeir, sem eiga margt af slíku tryppadóti, stofni ekki öðrum búpeningi í voða með því að setja það á vetur.