01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Guðmundur Ólafsson:

Það er eins með þetta mál sem önnur, sem fjárveitingar snerta, að því hefir verið vísað til fjárveitinganefndar.

En misskift er örlæti þeirrar háttv. nefndar, þar sem hún kemur nú fram með nál. alllangt um mál þetta, en venjulega hefir hún látið nægja þau ummæli, að hún fyndi „ekkert athugavert“ við fjárveitingar þær, sem undir hana hafa verið bornar, og við eitt mál sá jeg eigi alls fyrir löngu, að hún ljet þess eins getið, að hún sæi ekkert „ískyggilegt“ við það, enda var sú fjárveiting til verklegra framkvæmda.

En nú get jeg ekki betur sjeð en að nál. þetta mæli eins framt á móti till. eins og með henni.

Í fyrri málsgrein er tekið fram ýmislegt, sem mælir á móti fjárveitingunni, t. d. ósamræmið, sem af henni mundi leiða í eftirlaunum starfsmanna landsins, en í síðari málsgrein er fjárveitingin rjettlætt með því, að hana beri að skoða sem nokkurskonar biðlaun.

Í greinargerð háttv. flm. fyrir till. (M. T.) er þess getið, að farið sje fram á eftirlaun handa manni þessum vegna breytingar á póstleiðinni, og þar sem maðurinn sje búsettur á Ísafirði, sje hann neyddur til að segja af sjer starfinu.

Síðar í greinargerðinni koma fram aðrar ástæður, þær, að maður þessi sje þrotinn að heilsu og eignalaus.

Jeg skal ekki rengja það, að hann sje eignalaus, mjer er ekki svo kunnugt um hagi hans, en annars er eignaleysi standandi ástæða hjá öllum þeim, er um fje sækja, og er ekki langt síðan sú ástæða var færð fyrir því að veita eftirlaun einum bankastjóranum hjer, sem aldrei hefir þó verið talinn blásnauður og mun tæplega vera talinn það enn af öllum almenningi.

En hvernig stendur á því, að verið er að geta þess í greinargerðinni, að maður þessi sje búsettur á Ísafirði?

Hvað kemur það málinu við, ef hann er þrotinn að heilsu og er ekki lengur fær til starfsins?

Og hvernig er hægt að veita slíkum manni biðlaun, svo framarlega sem ekki á að kalla alt biðlaun, sem uppgjafaembættismönnum og starfsmönnum landsins er veitt til dauðadags?

Mjer finnast ástæður háttv. nefndar og háttv. flm (M. T.) í máli þessu vera svo mjög á reiki, að ekki komi til mála að gera manni þessum hærra undir höfði en öðrum starfsbræðrum hans.

Jeg er fáum póstum persónulega kunnugur, þekti að eins Sumarliða gamla norðanpóst af afspurn. Að allra dómi hefir hann verið ötull og duglegur og staðið vel í stöðu sinni, en verður þó að láta sjer nægja 200 kr. í eftirlaun, og engir póstar hafa hærri eftirlaun en 300 kr. En eftir till. þessari mundi bann engu síður eiga heimtingu á samskonar biðlaunum, og þar mundu fleiri á eftir fara.

Jeg er því algerlega mótfallinn því, að till. þessi verði samþykt.