05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

Ágreiningur um fundarbókun

Karl Einarsson:

Jeg hefi átt kost á að kynna mjer það, sem bókað hefir verið á síðasta fundi, og mjer virðist það ekki vera alveg rjett.

Hæstv. forseti lýsti yfir því, að það varðaði hegningu að greiða ekki atkv. við nafnakall. Þessa yfirlýsingu gaf hann þegar jeg í gær greiddi ekki atkv. við nafnakall hjer í háttv. deild og neitaði að gefa ástæðu, en þessa er ekki getið í gerðabókinni, heldur að eins sagt, að jeg hafi neitað að greiða atkv. Þykir mjer hjer bresta á bókunina, einkum þar sem yfirlýsingin var gefin af miklum móði, jafnvel barið í borðið.

Mjer vitanlega varðar þetta ekki annari hegningu en að þingmaðurinn missir af dagkaupi, svo að jeg bjóst ekki við neinum hvelli, þótt jeg greiddi ekki atkv., enda hefir það oft viðgengist hjer á háttv. Alþingi, þótt það muni sjaldan hafa borið við hjer í háttv. Ed., vegna þess, að þm. hafa ekki skorist undan að greiða atkv. Jeg gat vel haft ástæðu til að skýra ekki frá, hvers vegna jeg sat hjá atkvgr. í málinu, og svo var.

Til þess að sjá, hvernig þetta horfir við hjer á þinginu, hefi jeg litið á 3 fundargerðir háttv. Nd.

Á 58. fundi Nd. kemur nafnakall fyrir fjórum sinnum. Í fyrsta sinn greiðir 1 háttv. þm. ekki atkv., í annað sinn 3, í þriðja sinn 1 og í fjórða sinn 7, og færa engar ástæður fram.

Á 62. fundi Nd. og á 63. fundi Nd. greiðir einn háttv. þm. á hvorum fundi ekki atkv. við nafnakall, og ekki færa þeir fram neinar ástæður fyrir því.

Jeg hefi ekki orðið þess var, að út af þessu hafi neinn hvellur verið ger, en náttúrlega getur hæstv. forseti Nd. beitt ákvæðum þingskapanna, ef honum sýnist svo, og jeg geri ráð fyrir, að allir háttv. þm., sem ekki greiða atkv. við nafnakall og ekki færa fram ástæður sínar, sjeu viðbúnir að taka afleiðingunum af því. Svo er um mig, en alt annað eða frekara vil jeg frábiðja mjer.

Í sambandi við þetta skal jeg taka það fram, að í Sþ. greiddu 2 háttv. þm. ekki atkv., og var það þó mál, er nokkru skifti, þingseta háttv. l. landsk. varaþm. (S. F.), og færðu þeir enga aðra ástæðu fyrir því en að þeir vildu ekki skifta sjer af málinu. Og síðast í gær greiddi einn háttv. þm. í Nd. ekki atkv. við nafnakall og færði engar ástæður fyrir því, og var málið þó afgreitt með eins atkv. mun, en hjer gat það engin áhrif haft á afdrif málsins, þótt jeg hefði greitt atkv., og við sömu atkvgr. í háttv. Nd. fjekk annar háttv. þm., er kom inn meðan á atkvgr. stóð, en áður en henni var lýst yfir, ekki að greiða atkv.