18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1632)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Þegar þetta frv. var hjer til 1. umr., hafði jeg ekki ástæðu til að tala um frv. fram yfir það, sem greinargerðin ber með sjer. Nú langar mig því til að fara nokkrum orðum um málið alment. Það kann nú að vísu svo að virðast, að málið snerti mína eigin hagsmuni nokkuð náið. En jeg ætla samt að reyna að tala um það frá almennu sjónarmiði, fyrst jeg valdist til að hafa framsögu um frv. hjer í deildinni, sem telja má fremur óheppilegt.

Þetta frv. er þannig fram komið, að meiri hluti fjárveitinganefndar flytur það að tilhlutun landsstjórnarinnar, en hún hafði fengið áskorunarskjal frá Læknafjelagi Íslands um það að flytja frv. í þessa átt.

Eins og háttv. þingdm. er kunnugt, var á aukaþinginu 1916—17 samþykt dýrtíðaruppbót til starfsmanna landssjóðs og þannig ákveðið, að uppbótina skyldi greiða bæði af föstum launum og aukatekjum starfsmanna. Þingið 1917 breytti þessum lögum þannig, að dýrtíðaruppbót er nú að eins greidd af föstum launum. Þessi breyting kemur harðast niður á læknunum. Þeirra föstu laun eru svo lág, að þeim er ætlað að taka hlutfallslega mikinn hluta af launum sínum í aukatekjum. Sumir embættismenn taka líka aukatekjur sínar eftir verðlagsskrá, t. d. prestarnir. Fá þeir þá dýrtíðaruppbót á aukatekjum sínum í hækkuðu Verðlagsskrárverði. Þetta kemur því harðast niður á læknum.

Jeg skal ekki fára mikið út í einstakar greinar frv., heldur hafa framsöguna sem mest almenns efnis. Enda er litið um 1. gr. að segja. Hún er bygð svona nokkum veginn á því verðfalli peninganna, sem orðið hefir síðan stríðið hófst. En annars er óhætt að segja það um þá verðskrá, sem aukatekjur læknanna eru reiknað eftir, að hún er mjög gömul og því mjög lág. Þó lögin sjeu ekki eldri en frá 1917, þá er gjaldið miðað við eldgömul lög, enda tekið fram, að svo skuli vera, að gjaldskráin verði ekki yfirleitt hærri en áður hafði verið. Það er því mjög gamall grundvöllur, sem hún byggist á.

2. gr. er um borgun fyrir ferðir lækna. Jeg geng út frá því, þó að jeg viti það ekki með vissu, að þegar það var sett í lögin 1907, að læknar skyldu fá 30 aura fyrir hverja klukkustund, sem þeir eru frá heimili sínu, þá hafi verið miðað við það kaup, sem venjulegt var að borga verkamönnum þá. Þeim hefir víst | ekki verið borgað meira þá, og yfirleitt líklega ekki meira en 25 aurar á klukkustund. Ef það er rjett athugað, að kaup verkamanna hafi verið lagt til grundvallar, þegar ferðakaup læknanna var ákveðið, þá er fult samræmi í því að hækka það nú, og ætti reyndar að hækkast miklu meira, ef fult samræmi ætti að haldast.

Jeg geri ráð fyrir því, þó að ólíklegt kunni að virðast, að einhver verði til að hreyfa mótmælum. Jeg ætla því ekki að tala langt mál nú, en geri ráð fyrir að þurfa að svara einhverju seinna. Að eins eitt atriði get jeg tekið fram strax. Jeg get búist við, að á það verði bent, að óviðfeldið sje að hreifa við þessu á þessu þingi, þar sem það standi í sambandi við launalögin og verði tekið til yfirvegunar með þeim. En þar til er því að svara, að hjer er líkt ástatt og með launauppbót kennara, sem var hjer á ferðinni um daginn. Þessi uppbót á að eins að vera til bráðabirgða, eins og hin. það er tekið fram í 3. gr. frv., að þetta skuli ekki gilda nema meðan landssjóður veitir starfsmönnum sínum dýrtíðaruppbót.

Brtt. hefir komið fram við frv., en jeg ætla ekki að fara neinum orðum um hana, því jeg hefi ástæðu til að ætla, að hún komi ekki til atkvgr.