24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (1749)

56. mál, fólksráðningar

Magnús Torfason:

Jeg þarf ekki að snúa mjer að fólksráðningaskrifstofunni sjerstaklega. Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir gengið svo frá henni, að þess er engin þörf. Jeg skal því sjerstaklega snúa mjer að efni 2. greinar, þar sem landsstjórninni er gefið „vald til að ráðstafa vinnufæru en atvinnulausu fólki, sem ekki verður ráðið á fólksráðningaskrifstofunni, eða með frjálsum samningum á annan hátt.“ Jeg get ekki betur sjeð en hjer sje verið að slá stóru, svörtu ryki yfir alla fátækralöggjöfina. Sveitar- og bæjarstjórnir hafa hingað til haft þess háttar störf með höndum, enda borið þungann af slíku fólki sjálfar. Um þau mál hafa dvalar- og framfærslusveitirnar orðið að sjá, og má ætla, að þær sjeu best til fallnar fyrir kunnugleika sakir. Oft hefir reyndar verið kvartað undan harðræði, einkum af hálfu framfærslusveitar, ef þurfalingurinn hefir dvalið annarsstaðar. þurfamannaflutningurinn er illa þokkaður, og hefir orðið mörgum heimilum til mikils ills. Þetta hefir verið grundvöllurinn hingað til. En nú er verið að gerbreyta þessu, án þess að öðrum ákvæðum sje breytt um leið í samræmi við breytingu á grundvallaratriðinu. Hvergi er í frv. minst á, að landsstjórnin eigi að bera kostnaðinn af þessum þurfamannaflutningi, sem hún sjer um, nema hvað í 5. gr. er gert ráð fyrir fríu fargjaldi. Hvergi er minst á fóður handa fólkinu á leiðinni í þann sælunnar reit, sem verið er að flytja það til.

Eins og greinin er orðuð, að enn fremur heimilist landsstjórninni að ráðstafa vinnufæri fólki, þá verður að álykta, að þeir, sem ekki eru vinnufærir, börn og gamalmenni, megi ekki fara með, heldur verði að sitja heima.

Og þegar athugaður er tilgangur frv., eftir því sem segir í greinargerð þess, þá sjest það, að til valdsboðs þessa á ekki að grípa fyr en hungursneyð dynur yfir; en þá rekur að því, að börn og gamalmenni verða látin svelta heima. Eða kann ske það eigi að vera bjargráð og dýrtíðarhjálpin, að taka vinnukraftinn úr sveitum þeim, sem neyðin dynur yfir? Eg held það sje nokkuð viðurhlutamikið að breyta grundvelli þeim, sem lagður er með fátækralöggjöfinni, sem er hjer sniðinn eftir því, sem tíðkast í öðrum löndum, og láta ókunnugt vald, eins og landsstjórnina, taka við af sveitarstjórnunum, þegar í óefni er komið og hungur og mannfellir stendur fyrir dyrum.

Jeg get ekki sjeð annað en þessi ákvæði um vald landsstjórnarinnar sjeu algerlega ótímabær á þessu þingi. Jeg veit ekki til, að nein hætta sje á hungursneyð fram til næsta þings, þar sem nú nýlega hafa fengist loforð fyrir sæmilega miklum matarbirgðum til landsins.

Við höfum því algerlega nógan mat, en hitt er annað mál, hvort okkur verður ekki fjefátt, og hvort við getum fengið sæmilega mikið fyrir afurðir landsins; en úr því mundi ekki verða bætt með lögum þessum.

Jeg sje því ekki betur en það sje með öllu óþarft að samþykkja slík ákvæði sem þessi, nú þegar. Jeg hygg því, að mál þetta hafi gott af að hvíla sig, og eðlilegast að stjórnin undirbyggi slíkt mál. Henni ætti ekki að vera það vorkunn, enda er það skylda hennar.

Jeg skal taka það fram, að mjer þótti leitt, að frv. þetta skyldi koma fram í þessari hv. deild, af því að mjer er ant um sóma hennar og virðingu. Og jeg skal játa það, að jeg var allharðorður um frv., við 1. umr., af því, að jeg áleit það draga þessa hv. deild niður á við.

Einn hv. þm. sagði þá, að jeg væri að stofna til æsinga með orðum mínum, en það var alger misskilningur. Jeg mundi þá hafa viðhaft alt önnur orð, og jeg get fullvissað þann hv. þm. um það, að jeg hafði full ráð til að stimpla frv. þetta, hefði jeg viljað það við hafa.