10.06.1918
Efri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

36. mál, stimpilgjald

Framsm. (Magnús Torfason):

Jeg skal geta] þess þegar, að ritvilla hefir skotist inn í breytingartillögurnar. Það stendur, að þær sjeu „frá allsherjarnefnd“ en á vitanlega að vera „frá fjárhagsnefnd“.

Brtt. eru fram komnar sumpart vegna þess, að háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) benti á, hvernig nokkur atriði mættu betur fara. En alt eru það orðabreytingar.

Jeg finn sjerstaklega ástæðu til þess að nefna brtt. við 4. gr. c, sem jeg tel aðalbreytingartilllögu, að í stað orðanna „Afgreiðslumenn skipa eru skyldir til“, komi: „Sá, er afgreiðir skip, er skyldur til“. Nefndin leit svo á, að „afgreiðslumenn skipa“ væru að eins þeir, sem hafa það fyrir atvinnu að afgreiða skip, sem ganga eftir föstum áætlunum. En er nefndin heyrði á hæstv. fjármálaráðh., að með þessum orðum væri átt við alla þá, sem skip afgreiða, fanst henni rjett að taka af skarið um, að svo bæri að skilja þetta.

3. brtt, við 6. gr. í, er gerð til þess, að það komi skýrt fram, að stimpilgjaldið eigi að eins að gjalda af byggingarbrjefum, sem þinglesin eru. Byggingarbrjef eru auðvitað leigusamningar, og kemur það gleggra fram, að sömu reglur eiga að gilda um hvorttveggja, ef sagt er „Byggingarbrjef og aðra leigusamninga“, eins og nefndin leggur til. En um leigusamninga yfirleitt er þetta ákvæði í 3. gr. c: „Í afsals- og afhendarskjölum og leigusamningum, sem þinglesnir eru, skal ávalt tilfæra kaupverð, leiguverð eða andvirði, sem fyrir rjettindin kemur“. Fyrst nú þetta er tekið fram um þinglýsta leigusamninga, en ekkert ákvæði sett um óþinglýsta leigusamninga, þá hljóta þeir — óþinglýstu leigusamningarnir, og þar á meðal byggingarbrjef — að vera stimpilgjaldsfríir.

Við 7. gr. er gerð sú brtt., að í stað orðanna „þeir eru innleystir“ komi: „innlausn þeirra eða borgun fer fram“, til þess að ákvæði laganna nái líka til víxla þegar þeir eru greiddir samkvæmt dómi.

Loks er síðasta brtt. Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) benti rjettilega á það, að orðið „lögreglustjóri“ í 10. gr. nær ekki til bæjarfógetans í Reykjavík, sem hefir engin lögreglumál með höndum. Var sjálfsagt að laga það, og leggur nefndin til, að „valdsmaður“ komi í staðinn.