06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (1953)

110. mál, lán til kolanáms

Bjarni Jónsson:

Það getur verið hættulegt og spilt fyrir málinu að standa upp og mæla með till. þessari eftir þennan mikla þingsigur hv. þm. Barð. (H. K.) og 2. þm. Rang. (E. J.). Mjer þykir þó ilt, að hinn ágæti forvígismaður hans, 2. þm. Rang. (E. J.), skuli ekki vera viðstaddur. Hann talaði um, að jeg hefði fundið upp það ráð, til þess að lengja þingið, að koma með till. um lán til gistihússgerðar í Borgarnesi, svo að þm. gætu ekki fyrir bragðið komist þegar heim til búa sinna. En ef jeg hefði vitað, að hv. þm. væru búnir að ráða fullveldismálunum til lykta, mundi jeg hafa skammast mín og setið kyr í sæti mínu. En af því að mjer er ekki kunnugt um, að neitt sje staðráðið í því máli, þá hefi jeg leyft mjer að standa upp og mæla með till. þessari.

Það er ekki alt vit í því fólgið, að byrja að hjálpa þegar komið er í óefni, og það er ekki betra að lána mönnum kol fyrir hundruð þúsunda í vetur heldur en að hlaupa nú undir bagga með þeim, með 35.000 kr. láni, til þess að þeir geti aflað sjer kola sjálfir. Og þó að ómannlega hafi verið tekið samskonar málaleitun úr Strandasýslu, þá ætti það ekki að hafa áhrif á þetta mál. Því að einar 2.000 kr. hafa ekki neina þýðingu í þessu efni, en 35.000 kr. geta þó hjálpað til að koma málinu af stað. Og með því að jeg álít rjett, að stjórnin geri alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir skort, þá álít jeg skylt að samþykkja þessa tillögu.