06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

112. mál, gistihússauki í Borgarnesi

Hákon Kristófersson:

Mjer kom það ekkert á óvart, þótt hv. þm. Dala. (B. J.) tæki það illa upp, að jeg lagði á móti því, að þetta mál næði fram að ganga en hinu furðaði mig á, að hann, slíkur maður sem hann er, gæti ekki farið rjett með orð mín. Jeg sagði ekkert um þá hlið málsins, ef lánið yrði veitt, hvort það tapaðist eða tapaðist ekki. (B. J.: Mátti jeg ekki tala um neitt annað en það, sem hv. þm. (H. K.) sagði?). Jú, en hv. þm. hafði ekki heimild til, þó að hann álíti það kann ske sjálfur, að gera það að mínu áliti. Hv. þm. (B. J.) bar þetta saman við lánveitingu, sem jeg hafði fengið handa Barðstrendingum; þar vantaði nú ekki undirspilið, þar sem vinur minn, hv. þm. S.-M. (Sv. Ó;), var. En jeg verð að segja, að það er alt annað, hvort verið er að styrkja mikilsvert framfarafyrirtæki, eða mann til að bæta við gistihús. (B. J.: Eru það ekki menn sem á að bjarga?). (M. P.: Eru það ekki bjargráð?). Má vera, að það sjeu bjargráð, en það liggur þá samt ljósara fyrir hv. þm. Stranda. (M. P.) en mjer, að slíkt geti talist sem veruleg bjargráð. (M. P.: Mjer var sjálfum bjargað þar í vetur). Getur verið, en illa trúi jeg því, að staður eins og Borgarnes hefði ekki sjeð svo sóma sinn, að láta ekki annan eins mann liggja úti. (B. J.: En ef það hefði ekki verið „annar eins“ maður?). (Hlátur). Þá sagði hv. þm. (B. J.), að mjer mundi ganga það til, að jeg hjeldi, að sköpuð yrði samkepni við þann mann, sem rekur þar gistihús nú. Ja, væri það ekki vinur minn, hv. þm. Dala. (B. J.), sem segði þetta, þá segði jeg, að það væri blátt áfram sprottið af illgirni.

Þá bar sami hv. þm. (B. J.) það fram, að styrkur hefði verið veittur til húsabyggingar í Fornahvammi. Án þess nú að jeg vilji leggja nokkurn dóm á styrkveitingu þá, þá vil jeg þó benda á, að þar hagar alt öðruvísi til; það er líka munur á því, hvort á að byggja hús uppi á heiðum, eða niður við sjó, þar sem efnið er tekið rjett hjá. það hagar líka öðruvísi til þar, sem býli stendur undir löngum og erfiðum fjallvegi, og enginn bær nálægt, eða það er í fjölmennu kauptúni. Að vísu vil jeg viðurkenna það, að mikil þörf getur verið fyrir gistihús í kaupstöðum, en að bæta úr þeirri þörf tel jeg frekar skyldu annara en landssjóðs.

Jeg verð yfirleitt að segja, að jeg álít, að hv. þm. Dala. (B. J.) geti staðið sig við að minnast ekki á lánveitingu til Barðstrendinga, því að fjarri fer, að hún sje berandi saman við þessa lánveitingu. Og jeg verð að standa fast við þá skoðun, að með því að veita slík lán, sem hjer er farið fram á, er skapað ilt fordæmi. (B. J.: Fordæmi um gistihúsgerð í Borgarnesi). Nei, ekki einungis þar, heldur hvar sem vera skal. Jeg vil og benda á það, að þótt hjer sje að eins farið fram á 6.000 kr. lán, þá hefir landssjóður það ekki handbært nema hann taki lán. (B. J.: Það mætti taka af þessum 90.000 kr., sem hv. þm. (H. K.) hefir útvegað Barðstrendingum). Jeg býst við, þótt fylgi hv. þm. Dala. (B. J.) kæmi þar til, að ekki sje hægt að ná því fje aftur. En misminni er það hjá hv. þm. (B. J.), að jeg hafi útvegað 90 þús. kr. handa Barðastrandarsýslu sem lán. Og úr því vinur minn, hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.), fór að benda hv. þm. Dala. (B. J.) á þá upphæð, var til þess ætlandi af honum, að hann færi rjett með og nefndi rjetta upphæð, en bætti ekki við einum níunda hluta.

Annars kemur hvorki mjer nje öðrum það á óvart, þó að hv. þm. Dala. (B. J.) leggist á móti sparnaðarhugmyndum. Það er sem sje kunnugt, að sá ljóður hefir verið, og er, á ráði þess mæta manns, að kunna ekki að gæta hagsýni í meðferð á fje landssjóðs.