28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (2139)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Mig furðar eigi á því, að lægra launuðu embættismennirnir hafa farið fram á launabætur. Það er alkunnugt, að hagur þeirra flestra er fremur erfiður, eins og hagur smærri bænda og almennings yfirleitt, þeirra sem eigi styðjast við efni frá fyrri tíð eða reka stóra útgerð. Og það er því síður tiltökumál, þar sem flestir þeirra eiga heima í kaupstöðum, þar er litið er um aukatekjur.

En mig furðar á, að fjárveitinganefnd skuli hafa getað hugsað sjer að koma á nokkrum jöfnuði millum embættismanna með þessu frv. því að jeg fæ ekki betur sjeð en með því sje haggað því jafnvægi, sem áður var millum launa þeirra, ef nokkuð var. Og þetta er því óskiljanlegra, að hún hugsar sjer að koma á jöfnuði með þessu, þar sem hún hækkar launin án tillits til ástæðna. En óskiljanlegast er mjer þó, að hún leggur til, að dýrtíðaruppbótin skuli ekki miðuð við þessi laun, heldur þá launahæð, sem þeir höfðu áður en viðbótin var veitt. En með því fyrirkomulagi verður djúpið millum þeirra, sem viðbót fá, og hinna, sem enga fá viðbótina, enn þá dýpra, munurinn átakanlegri og rjettlætið minna.

Aðgætandi er, að með þessu er tekinn út úr hóp opinberra starfsmanna lítill hluti þeirra, að því er mjer telst til 90 manns. Flestum þeirra eru ætlaðar um |500 kr. viðbót. Hinir — alls um 1.400 — sitja eftir með sárt ennið og er engin úrlausn gerð. Jeg skil ekki annað en þetta hljóti að valda óánægju með þeim, sem settir eru hjá, og mörgum hinna, er viðbót hafa fengið. Þeir munu finna, að í þessu er fólgið misrjetti.

Með þessu er horfið frá þeim grundvelli, sem lagður var af síðasta þingi. Því að þá álitu menn, að eigi væri hægt að endurskoða launalögin, heldur yrði að bæta öllum embættismönnum peningaverðfallið, svo að þeir liðu ekki þess vegna, og einkum þeim, sem lægst voru launaðir. Þessi hugsun var rjettmæt og allsendis eina færa leiðin. Og jeg fæ ekki betur sjeð en að hún sje jafnrjetti nær nú sem hún var í fyrra. Mjer virðist, að það sje meiri vansæmd að láta láglaunuðu embættismennina svelta heldur en að veita hinum háláunuðu ekki launauppbót, sem svarar til embættisgöfgi þeirra eða metorða.

En þar sem margir þm. sjá sjer ekki fært að breyta dýrtíðaruppbótarlögunum og vilja því samþ. frv. þetta, þá vil jeg reyna að sníða af því stærstu agnúana. Nefndin sá sjér ekki aðra leið færa út úr þessu völundarhúsi, og skal jeg ekki álasa henni fyrir það. En jeg kann ekki heldur við að fá snuprur, eins og jeg fekk hjá hv þm. V.-Ísf. (M. Ó.), fyrir að koma með till., er fer í þá átt að nema stærstu agnúana af frv. og skapa meira rjettlæti.

Jeg ætla ekki að eltast við hnútur þær; sem hv. frsm. (M. Ó.) kastaði til mín í ræðu sinni í gær. Hann sagði, að jeg hegðaði mjer svo, sem jeg vildi taka það með annari hendinni, er jeg gæfi með hinni. Jeg kem síðar að því að sanna, að þetta er rangt. Það mætti miklu frekar segja, að jeg tæki frá ríkari kirkjunni og gæfi hinni fátækari. En það er alt annað en að taka með annari hendinni það, sem gefið er með hinni. Till. mínar Stefna eigi að því að draga úr útgjöldum landssjóðs, heldur miða þarf að því að koma á meiri jöfnuði. Að öðru leyti get jeg látið ósvarað köpuryrðum hv. frsm. (M. Ó.). Hann var að reyna að tala till. mínar í hel, líkt og taxtahækkun læknanna, sem hann átti mikinn þátt í að var feld hjer í deildinni. Þá skal jeg víkja að brtt. þeim, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram. Þær eru aðallega þrennskonar og eru á þgskj. 404 og 414. Jeg bið hv. þm. að athuga það, að brtt. á þgskj. 414 er fram komin vegna þess, að kennarar kennaraskólans og fræðslumálastjórinn fjellu úr af vangá, er jeg hreinskrifaði upphaflega brtt. En nú hefir mjer gefist færi á að kippa þessu í lag.

Brtt. mínar eru aðallega þrennskonar, eins og jeg tók fram áðan. Brtt. við 1. og 12. gr. lúta að hinu sama, sem sje því, að dýrtíðaruppbótina skuli miða við launin, eins og þau verða eftir viðbótina fengna, en ekki eins og þau voru áður. Jafnvægið í dýrtíðaruppbótinni helst jafnt eftir sem áður, en ójöfnuðurinn verður minni en ella.

Önnur brtt. miðar að því að taka skýrar fram ákvæði í 7. gr. frv., þar sem talað er um aukakennara. Því að meðal þeirra lægi næst að heimfæra leikfimikennara, söngkennara og hegurðarkennara; yfirleitt alla þá, sem kenna við skóla. En nú hafa flestir slíkir kennarar aðalstarf sitt annarsstaðar, en skólakensla þeirra er að eins lítilfjörlegt aukastarf. Því er engin ástæða til að veita þeim sömu uppbót og hinum kennurunum. Tveir nefndarmanna hafa sagt mjer, að hjer sje átt við 1. og 2. aukakennara mentaskólans, og hygg jeg það rjett vera. En jeg vildi ákveða þetta skýrar, svo að það ylli ekki miskilningi.

Þriðja brtt. mín er sú, að lögin öðlist gildi um næstu áramót. Mjer fanst vafningaminst, að þau öðluðust gildi þegar reikningsskil eru gerð.

Jeg þarf ekki að fjölyrða öllu meira um brtt. mínar. Jeg vona, að öllum hv. þm. sje ljóst, að þær fara eigi í bága við hugsun þá, sem fyrir nefndinni hefir vakað, nema ef til vill að því leyti, að uppbótin kemur dálítið öðruvísi niður. Árangurinn af því, að mínar till. yrðu samþyktar, mundi verða sá, að þeir, sem hafa lægri laun, fá hærri dýrtíðaruppbót en áður, t. d. læknar. Þeir fengju uppbót af 1.500 kr., en af 2.000 kr., ef mínar till. yrðu samþyktar. Alls mundu fastar tekjur þeirra þá nema á 4. þús. kr.

Þá er eftir eitt atriði þessa máls, sem mig langaði að minnast stuttlega á. Sú hlið snýr að framtíðinni, og hlýtur okkur því að verða starsýnt á hana, er við eigum að fást við launamálið í stærri dráttum. Það er víst eins dæmi í hinum mentaða heimi, að með nokkurri þjóð sjeu jafnmargir opinberir starfsmenn, í hlutfalli við fólksfjöldann, sjem hjer á landi. Mjer telst svo til, ,að þeir sjeu 1.500 eða 1 af 60. (E. A.: En ef þeir skyldu vera fleiri annarsstaðar?). Jeg þekki ekki dæmi þess. Það er sýnilegt, að þessi fjöldi er sú byrði fyrir þjóðfjelagið, að það á erfitt með að rísa undir, og hún dregur úr þrótti þess. Og því meiri hætta er á þessu, þar sem því er haldið fram, að þeir megi helst ekki gefa sig við öðrum störfum, því að það geri þá óhæfa til embættisstarfa. Ef þeir mættu eigi hafa aðra atvinnu en embættið veitir þeim, verða launin að vera hærri en ella.

En jeg er á annari skoðun. Jeg held, að við verðum að búa svo í garðinn, að opinberir starfsmenn vorir geti líka unnið fyrir sjer með öðru starfi jafnhliða, eins og prestarnir hafa gert t. d., sú stjettin, sem mest gagn hefir gert þessu þjóðfjelagi. Þessu verðum við að muna eftir næst. Því að þar að kemur, áður en langt um líður, að þeir, sem nú eru settir hjá, munu kvarta, og erfitt mun verða að daufheyrast þá við þeim kveinstöfum. Í þetta skifti eru póstmenn og sýslumenn settir hjá og fjöldi annara opinberra starfsmanna, er situr við rýr kjör í samanburði við þá, sem nú fá uppbót.

Jeg skal ekki skifta mjer af fleiri brtt., svo að jeg tefji ekki tímann fyrir þeim, er þær flytja.