28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í C-deild Alþingistíðinda. (2147)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg skal reyna að vera stuttorður. Það hafa svo margir talað og stutt mál nefndarinnar, að jeg get sparað mjer mörg orð. Skal jeg nú snúa mjer að þeim, sem andmæltu mjer og taka þá í röð. Er þá fyrst hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann sagði, að nefndin hefði ekki reynt að brúa djúpið milli há- og láglaunuðu mannanna, heldur gert sitt til að breikka það. Jeg held, að það sje nú þegar búið að kryfja svo brtt. þessa hv. þm. (Sv. Ó.), að öll um muni ljóst, að þar sje varla heil brú í. Munu þær því ekki brúa djúpið. Það er búið að benda á, hve afarlítið þær bæta úr fyrir þeim láglaunuðu, en draga aftur miklu meira úr hjá hinum, sem hafa hærri laun. Það er nú búið að draga þær svo í sundur og tína fram fyrir hv. tillögumann, að jeg vona, að hann sjái, að það stendur ekkert eftir af hans till. og að jeg hefi haft rjett fyrir mjer.

Um hnútur, sem jeg hafi verið að kasta að hv. þm. (Sv. Ó.), er það að segja, að jeg verð að vísa þeim frá mjer og kasta þeim aftur til hans, því að það var þvert á móti því, sem hv. þm. (Sv. Ó.) segir; jeg tók það einmitt fram, að hann mundi ekki hafa þann eiginlegleika, sem till. benti á; jeg sagði ekki annað.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) segir enn fremur, að tveir af nefndarmönnum hafi verið samþykkir sjer um einhver atriði, en jeg hefi nú gengið á milli allra í nefndinni og spurt hvern og einn um það, en þeir neita því allir; þætti mjer því gott, ef hv. þm. (Sv. Ó.) vildi gera svo vel að nefna þá, — hann getur gert það úr sæti sínu. Þá gaf sami hv. þm. (Sv. Ó.) það í skyn, að hv. þingdm. myndu láta málið gjalda mín, sem frsm., en jeg vona, að það verði ekki aðrir en hv. þm. (Sv. Ó.) sjálfur, sem lætur málefnið gjalda frsm.

Sami hv.þm. (Sv. Ó.) mintist einnig á, hve mörgum embættismönnum væri slept, en jeg hefi svo oft tekið það fram, að þegar um margar skyldur er að ræða, þá eiga menn heimtingu á, að þeim skyldum sje sint, sem brýnastar eru, og þeir, sem hafa með höndum smærri störf fyrir þjóðina, eiga óneitanlega ekki eins brýna kröfu til landssjóðs eins og þeir, sem aðalstörfin hafa. Hv. þm. (Sv. Ó.) mintist á sýslumennina í þessu sambandi, en jeg gat þess áður, að nefndin myndi athuga kjör þeirra síðar. En þegar jeg svara því, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, mun jeg koma aftur að þessu atriði.

Um ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.) er það að segja, að það hefir þegar verið minst á hans till., og einmitt á sama hátt og jeg hefði gert, svo að jeg get því látið vera að svara honum öðru en því, að jeg verð að mótmæla þeim ákúrum, sem hann var að senda mjer fyrir hönd sálarfjelaga síns, hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hv. þm. (P. O.) hafði heyrt, eða öllu heldur viljað heyra, að jeg hefði sagt einhver lastyrði um hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), en það kemur nú svo oft fyrir hjá þeim hv. þm. (P. O.), að hann áfellir menn fyrir það, sem þeir hvorki hafa hugsað nje talað, svo að jeg býst við að verða að láta mjer það vel lynda, og ekki hvað síst fyrir það, að hv. þm. (P. O.) er óhræddur við að taka þátt í umr. um ýms málefni, sem hann alls ekki ber skyn á. Og hann hefir jafnvel ráðist á menn, sem alls engan kost hafa átt á að verja sig hjer, svo að jeg hygg, að naumast geti verið við góðu að búast úr þeirri átt. Þegar jeg mintist á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði jeg, að ef það hefði leikið á tveim tungum, hvort hv. þm. (Sv. Ó.) væri undirhyggjumaður eða ekki, þá mundu menn hafa hallast að þeirri skoðun, að þetta væri gert til þess að „plata“ hv. deild, en nú væri það hafið yfir allan vafa; hv. þm. (Sv. Ó.) væri maður hreinskilinn, — en vilji hv. þm. (P. O.) mótmæla því, þá geri hann svo vel, en jeg segi, að þetta sje svo, sem jeg hefi þegar sagt, og sagði aldrei hitt.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) gat þess í ræðu sinni, að hann saknaði ýmsra manna, sem ekki væru taldir þar upp og því ekki ætluð launaviðbót. Þetta er alveg rjett. Nefndinni hefir láðst að taka með ýmsa menn, en hún hefir hugsað sjer að bæta þeim inn í fyrir 3. umr. Það eru þá aðstoðarbókavörður við landsbókasafnið, póstmeistari og dýralæknar. En um hina síðastnefndu má reyndar geta þess, að nefndin mintist á þá, og kom henni saman um, að kjör þeirra væru hvergi nærri svo bágborin, saman borið við aðra lækna, bæði af því, að þeir hefðu eigi ákveðinn taksta og því alveg óbundnar hendur, og svo eru þeir löngum settir þar, sem mikið er að gera við eftirlit á kjöti og merkingu á því. Af þeim sökum leit nefndin svo á, að þeir væru ekki svo illa staddir. Um póstmeistarann er það að segja, að nefndinni virtist það ekki svo sjálfsagt að taka hann með, vegna þess að hann mun vera einn með betur launuðum embættismönnum þessa lands. Þá nefndi hv. þm. (E. A.) landssímastjórann. Jú, það er líka rjett, við vorum einu sinni búnir að setja hann í okkar frv., en við fengum að vita, að þeirri upphæð, sem við vildum veita honum, gæti hann ekki tekið við, og mundi hann heldur biðja um leyfi til að fá að fara utan með „Botniu“ til þess að leita sjer annars starfa. Menn úr nefndinni áttu tal við hann, og ljet hann þess um getið, að honum þætti sárt að þurfa að fara frá áður en búið væri að koma á ýmsum umbótum, sem væru á leiðinni; hefir nefndin því hugsað sjer að leggja til við stjórnina, að tekin verði í frv. til fjáraukalaga upphæð, sem fer milliveginn á milli kröfu hans og till. nefndarinnar.

Þá skal jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Hann áleit best að taka alt launamálið fyrir. (J. B.: Nei, nei! Jeg sagði, að það hefði verið betra.) þá yrði nú annað tveggja launin óhæfileg sultarlaun, eða að þau gætu í mörgum tilfellum orðið óhófslaun eftir ófriðinn, og getur því ekki komið til mála að slá nokkru föstu um launamálið fyr en eftir ófriðinn; er svo margtoft búið að taka þetta fram, að ekki ætti að þurfa að segja það aftur.

Þá er að tala um póstmennina. Er þess þá fyrst að geta, að þeir hafa yfir sjer einhvern hinn mesta ráðdeildarmann í embætti; hefir hann síðan í ófriðarbyrjun veitt þeim dýrtíðaruppbót og ekki snúið sjer til nefndarinnar; býst jeg því við, að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) geti naumast legið okkur á hálsi fyrir það, að við förum ekki að þefa uppi þá menn meðal póstþjóna landsins, sem kann ske mætti segja að ættu heimting á launahækkun, þegar menn, sem eiga um þá hluti að sjá, ekki hafa snúið sjer til nefndarinnar. Þá benti hv. þm. Dala. (B. J.) á, að doktor Alexander Jóhannesson vantaði, en það er ekki af vangá. Hann er nokkurskonar sendikennari; jeg veit ekki betur en að hann sje hjer fyrir hönd þýska konsúlsins, og mun hann hafa nokkrar tekjur af því starfi. Auk þess hefir hann bókmentastyrk frá þinginu.

Jeg hefi þegar minst á landssímastjórann og get því slept að svara hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) að öðru en því að tala um prestana, sem honum þótti farið frekar illa með; hann gætir þess ekki, að þeir hafa ekki orðið nærri því eins tilfinnanlega fyrir verðfalli peninganna eins og aðrir embættismenn. þess ber nefnilega að gæta, að allur fjöldinn af þeim hefir fengið jarðirnar metnar upp í launin, og jarðaafnot hafa ekki fallið í verði, heldur þvert á móti, svo að þeir myndu alls ekki vilja selja afnot jarða sinna fyrir svipað verð. Einnig veit jeg ekki betur en að þeir taki allmikið af launum sínum í afurðum, sem koma þeim talsvert betur en krónurnar, sem aðrir embættismenn fá. Þá gat hv. þm. (G. Sv.) um sýslumennina, og þótti honum undarlegt, að þeir væru ekki teknir upp í frv. Jeg held, að jeg hafi einmitt getið þess, fyrir nefndarinnar hönd, að þeir voru af vissum ástæðum ekki teknir upp í frv., þótt ekki hefði munað svo mikið um að sletta í þá 500 krónum hvern, úr því að þeir eru ekki nema 17 alls; þeir kváðu sem sje hafa haft talsverðar tekjur af störfum í þarfir landsverslunarinnar síðustu árin; t. d. situr einn hjer á þingi, sem segist hafa fengið 2.000 krónur, (H. K.: Einn fjekk hátt á 5. þúsund), og álítur stjórnin, að líkt verði eftirleiðis, en síðan höfum við talað við forstjóra landsverslunarinnar, og virðist svo, sem þeir hafi sagt okkur nokkuð annað en hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.); þeir hafa nefnilega sagt okkur, að þeir geti ekki sjeð ástæðu til að láta þá hafa nein veruleg störf á hendi fyrir landsverslunina, en þeir hafa líka sagt okkur, sem við reyndar vissum áður, að í ráði væri, að vörur yrðu fluttar beint frá útlöndum, t. d. til allra bæjanna, Ísafjarðar, Akureyrar og Seyðisfjarðar. Af þessu leiðir, að óhjákvæmilegt er, að bæjarfógetar á þessum stöðum heimti inn toll af þeim vörum, og þá mundu þeir fá allmiklar tekjur af þeirri innheimtu. Sjá menn af þessu, að það er ekki rjett að láta alla fá jafnmikið, eins þá, sem miklar aukatekjur fá af landsversluninni, og þá, sem alls ekkert fá þaðan. Nú var það á hvers manns vitorði, að þegar farið var að ákveða, hve mikið sýslumenn ættu að fá fyrir innheimtuna á tollunum, þá var látið í veðri vaka, að þeir blátt áfram töpuðu á því að þurfa að skifta sjer nokkuð af þessu, og ef það er rjett, ætti ekki að verða svo mikil eftirsjón að því að sleppa starfinu.

Jeg býst ekki við að geta sagt neitt frekar um þetta mál að sinni, enda geri jeg ekki ráð fyrir að geta snúið huga nokkurs manns, þótt jeg talaði lengur um það. En hins vegar vil jeg benda hv. þm. á, að flestir þeirra, sem nú eru í fjárveitinganefnd, hafa eitthvað orðið að víkja frá skoðunum sínum, til þess að samkomulag fengist, því að þar sem í nefndinni sitja menn af öllum flokkum, hljóta skoðanir þeirra að verða mismunandi, en nú hefir þó tekist að ná samkomulagi, og vona jeg, að öðrum hv. þm. verði þetta gagnlegt fordæmi.

Áður en jeg sest niður, vil jeg minnast ofurlítið á brtt. á þgskj. 414, við brtt. á þgskj. 404, og aðra á þgskj. 412. í þeirri brtt., er jeg nefndi síðast, er svo tiltekið, að í staðinn fyrir 500 krónur í 4. gr. komi 1.000 krónur, en í þeirri grein eru meðal annars landlæknirinn og holdsveikralæknirinn. Það var ekki meiningin upphaflega að hækka laun þeirra um 1.000 krónur, heldur gripum við flm. til þessa, þegar ekki tókst að koma fram neinni hækkun á gjaldskránni. En það var ekki meiningin, að þessi hækkun ætti að ná til áðurnefndra tveggja lækna, og því er þessi brtt. á þgskj. 412 tekin aftur, en í staðinn fyrir hana kemur brtt. á þgskj. 415. Það leiðir af sjálfu sjer, að fyrst að lagt er til að hækka laun þeirra lækna, sem nefndir eru í 4. gr. frv., þá verður líka að hækka laun þeirra, sem nefndir eru í 5. gr. Jeg vona, að menn sjái þá þörf, sem er á þessu frv., og fari ekki að nota agnúa þá, sem á því kunna að vera, til þess að fella það.

Þegar hjer var komið umr., var útbýtt brtt. á þgskj. 415. Leitaði forseti afbrigða frá þingsköpum, og voru þau leyfð og samþ. með öllum gr. atkv. Tóku flm. þá aftur fyrra lið brtt. á þgskj. 412.