02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg þarf ekki að fjölyrða um málið að þessu sinni. Jeg vildi að eins drepa á nokkur atriði, er komu fram í ræðu hv. frsm. (M. Ó.) í gær, sem jeg er ekki samþykkur og get ekki leitt hjá mjer að minnast á.

Hv. frsm. (M. Ó.) gat þess, að nefndin hefði reynt að fara svo skamt, sem hún hefði frekast getað. Af þeirri ástæðu hafi nefndin ekki getað fylgt till. minni um launabætur póstmanna. En þar finst mjer sparsemin koma ómaklega niður. Póstmenn hafa allra starfsmanna landsins minst laun, en mikla vinnu, og munu fáir eiga skilið að fá uppbót betur en þeir. Þótti mjer því vænt um, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) skýrði það frekar, er jeg hafði sagt um þetta atriði.

Hv. frsm. (M. Ó.) sagði, að ef póstmönnum fyndist staða sín ekki lífvænleg, þá gætu þeir skift um stöðu og leitað annarar atvinnu, er væri betur launuð. þessu er fyrst til að svara, að hið opinbera hefir ekki leyfi til skapa mönnum þau kjör, að þeir geti ekki lifað við þau, heldur verði að hröklast frá starfi sínu. í annan stað er þess að gæta, að þar sem þeir bera svo mikla peningaábyrgð, þá er ábyrgðarhluti að skamta þeim svo lág laun, að þeir geti ekki dregið fram lífið. Dæmi eru til þess, að menn hafa gripið til þeirra ráða, sem ekki eru viðfeldin og þeir hefðu ekki gripið til, ef þeim hefði verið launað sæmilega.

Það skýtur og allskökku við, er hv. frsm. (M. Ó.) ljet um mælt, er till. um uppbót til símamanna var til umr. Hann kvað þá nauðsynlegt að launa símamenn svo vel, að þeir þyrftu ekki að stökkva frá starfi sínu. Menn kæmu óvanir að símanum, en þegar þeir væru orðnir vanir starfinu, þá hrökluðust þeir oft og einatt í burt vegna þess, að þeim nægðu ekki laun sín. Þetta er alveg rjett. En það nær engu síður til póstmanna en til símamanna. Allflestir bestu póstafgreiðslumennirnir hafa sagt starfa sínum lausum; þeir hafa ekki treyst sjer til að lifa við þau kjör, sem þeim hafa verið boðin. Og nú alveg nýlega hafa nokkrir menn farið frá pósthúsinu.

Jeg er á því, að menn verði fyrst í stað, að minsta kosti hjer í bænum, varir við þá breytingu, sem verður á afgreiðslu póstsins. Maður sá, sem haft hefir þann starfa að bera út póstinn hjer í bænum, hefir nú sagt þeim starfa lausum, og býst jeg við, að erfitt verði að fá mann í hans stað.

Jeg þarf nú ekki frekar að leiða rök að nauðsyn þeirri, sem á er þessu máli. Jeg gerði það í gær, og hefir enginn mótmælt því, er jeg þá sagði. En til frekari árjettingar skal jeg geta þess, að póstafgreiðslumenn, t. d. á brjefhirðingarstöðum úti um land, verða víst fegnir að losna við þann starfa, því að þóknunin, sem þeir fá, mun naumast hrökkva fyrir kaffi og veitingum handa póstinum. Jeg skal nú nefna af handahófi nokkra staði, t. d. Egilsstaði. Svo er nú ástatt að vísu, að bóndinn þar mun standa sig vel, þótt hann hafi engan ágóða af póstafgreiðslunni, enda er það vitanlegt, að hann fær minna en ekki neitt fyrir verkið, og er því ekkert undarlegt, þótt hann vilji gjarnan losna við þesskonar starf, enda hefir hann æskt þess. Á brjefhirðingarstaðnum í Skriðdal hefir hlutaðeigandi maður afsagt að hafa brjefhirðinguna á hendi. Annar hefir nú verið fenginn til þess, og frábiður hann sjer slíkan bagga. Svipað mun vera ástandið hjer nærlendis, svo sem t. d. á Lágafelli. Svo að þetta nær lengra en að eins til póstafgreiðslumanna í Reykjavík eða kaupstöðunum, því að það er úti um alt land. Það sýnist því ekki að nauðsynjalausu, að farið er fram á einhverjar bætur til póstmanna.

Nú hafa komið fram við till. mína 2 brtt. Er önnur þeirra á þgskj. 436, og vill hún breyta þannig, að í stað 15.000 kr. komi 8.000 kr. Bót kynni nú að vera í þessu; því neita jeg ekki. En þó vil jeg mælast til þess, að hv. deild fallist ekki á þessa brtt., því að það er of lítil hækkun. Verði þessi till. samþykt, hækkar þóknun til póstmanna, svo lág sem hún var áður, um ein 13%. En líti maður á hækkanir til annara embættismanna, þá nema þær þetta frá 14—70%. Og þar sem það er ómótmælt, að þessir starfsmenn, póstmennirnir, eru lægst launaðastir allra, þá kann jeg ekki við, að þeir fái lægstu uppbótina. Mjer hefði þótt eðlilegra, að þeir hefðu verið settir ofarlega í hækkanastiganum.

Enn er komin fram önnur brtt., frá hv. þm. S.-Þ. (P. J.), um að í stað 15.000 komi 10.000 kr. Hún er að vísu nokkru nær, en þó nemur hækkunin þar ekki nema um 16%. Brtt. mín fer fram á að hækka þóknun póstmanna um 25%, og get jeg ekki annað en álitið hana svo sanngjarna, sem verða má. En ef hv. þingdm. geta þó ekki fallist á hana, þá vona jeg, að þeir samþ. þó fremur till. hv. þm. S.-Þ. (P. J.), en ekki till. hv. þm. Stranda. (M. P.), sem vill lækka uppbótina meira.