13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Stefán Stefánsson:

Jeg ætla að eins að segja örfá orð viðvíkjandi ræðu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.).

Þar sem háttv. þm. (E. A.) tók það fram, að Siglfirðingum þyrfti ekki að blæða, þótt gjaldið yrði 1.000 kr. á bæjarsjóð árlega, þar sem þeir gætu náð því með því að leggja því hærri aukaútsvör á erlenda menn og aðra aðkomugesti, þá er því til að svara, í fyrsta lagi, að litlar líkur eru fyrir því, að útlendingar reki þar atvinnu, eins og nú standa sakir, að nokkrum verulegum mun.

Og í annan stað, að þótt hægt væri að leggja dálítið meira á aðkomumenn heldur en allra brýnustu þarfir heimta, eða bein skyldugjöld, þá er nóg við það fje að gera, því að mikil og mörg verkefni eru þar óunnin, bæði bryggjugerð í stórum stíl, vegalagningar og ýmiskonar mikilsverðar umbætur, sem kauptúninu er bráð nauðsyn að koma í framkvæmd.

Það sjá því allir heilsjáandi menn, að nóg er við fjeð að gera, þótt ekki sje verið að kría það út af þeim — liggur mjer við að segja — að ástæðulausu.

Annars vil jeg í þessu sambandi minna á þau orð hæstv. forsætisráðherra, sem hann viðhafði hjer við 2. umr., að hann sæi ekki ástæðu til þess að leggja á móti frumv., ef brtt. flutnm. yrðu samþyktar.

Hvað viðvíkur því, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) var að tala um það, að jeg hafi sagt, að aðrir lögreglustjórar hefðu dómsvald, þá var það auðvitað mín meining, að bæjarfógetar, sem líka eru lögreglustjórar kaupstaðanna og oddvitar bæjarstjórna, hafi fult dómsvald, og þó þurfa kaupstaðirnir ekki að greiða þeim nema 500 kr., en þessum lögreglustjóra, sem hefir svo takmarkað dómsvald, á Siglufjörður að greiða 1.000 kr. Þetta er óneitanlega ekki samræmi og engan veginn sanngjarnt.

Að þessu sögðu læt jeg lokið máli mínu.