10.06.1918
Efri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

93. mál, bráðabirgða útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (S. E):

Frv. þetta er, eins og kunnugt er, borið fram af fjárhagsnefnd Nd. í samráði við stjórnina, og greinargerð sú, er því fylgir, er svo ljós, að þar þarf engu við að bæta um ástæðum að veita stjórninni ýmsar heimildir nú, sem hún mundi ekki óska eftir, ef annars væri kostur.

Og jeg vil lýsa yfir því, að reglugerðarákvæðum þeim, sem hjer eru heimiluð stjórninni, mun hún alls ekki beita nema nauðsyn krefji, og komi það fyrir, mun þess verða gætt, að þeim verði beitt með sem allra mestu rjettlæti.

Jeg get því ekki fallist á brtt. háttv. þm. Vestm. (K. E.); jeg álít hennar ekki þörf. Stjórnin mun gera sjer far um, að slíkt ranglæti komi ekki fyrir, sem brtt. gerir ráð fyrir að geti átt sjer stað eftir frv.

Jeg vona því, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd., enda tel jeg ekki víst um afdrif þess þar, ef brtt. þessi verður samþykt hjer.