15.05.1918
Efri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

35. mál, bæjarstjórn Vestmannaeyja

Frsm. (Magnús Torfason):

Eins og sjest á áliti nefndarinnar, sem prentað er á þgskj. 103, mælir nefndin eindregið með því, að frv. þetta verði samþykt.

Nefndin fær ekki sjeð annað en allir staðhættir mæli með því, að sú breyting verði gerð, að Vestmannaeyjar verði teknar í tölu kaupstaða, en kann hins vegar ekkert, er mæli á móti því.

Nú hagar þar svo, að hjeraðsstjórninni er tvískift, í hreppsnefnd og sýslunefnd. Þetta er miklu þunglamalegra fyrirkomlag en bæjarstjórnarfyrirkomulagið, og það getur ekki unnið með eins miklum krafti og festu að hag eyjabúa. Breyting þessi gerir það að verkum, að stjórnin verður miklu einfaldari og fær betur notið sín, auk þess sem hreppsnefndir og sýslunefndir vantar vald til að gera ýmsar samþyktir, sem bæjarstjórnir geta gert.

Í nefndarálitinu er gerð grein fyrir sumum brtt. nefndarinnar, og finn jeg ekki ástæðu til að endurtaka það.

2. brtt. nefndarinnar, við 2. gr. frv., miðar að því að taka það skýrar fram en gert er í frv., að bæjarfógeti Vestmannaeyja hafi víðtækari störf en aðrir bæjarfógetar. Hann hefir umboðsstörf á hendi. Því er það, að grein þessi er orðuð öðruvísi en í lögum hinna kaupstaðanna.

3. brtt. nefndarinnar, við 3. gr. frv., miðar að því að slá því föstu, að bæjarstjórninni beri að greiða oddvita sínum þann útlagðan kostnað, er hann hefir sem slíkur.

Með launalögunum 1875 voru stofnuð bæjarfógetaembættin í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði. Bæjarfógetinn hjer í Reykjavík fjekk strax 1.000 kr. í skrifstofufje, en hinir bæjarfógetarnir, á Akureyri og Ísafirði, fengu ekki einn eyri. Laun þeirra voru þó 3.500 krónur. Síðar voru þeim falin enn víðtækari störf í þágu bæjarfjelaganna — með lögum frá 1883 — án þess að þeir fengju eineyring fyrir það. Þarna er gengið mikið lengra en í tilskipun frá 1872, þar sem svo er mælt fyrir, að sýslumenn fái endurgreiddan þann kostnað, er þeir hafa sem oddvitar sýslunefndarinnar. Þetta telur nefndin ekki rjetta stefnu, og þótt hún líti svo á, sem landið geti fyrst um sinn lánað Vestmannaeyingum embættismann, þá vill hún taka það fram, að það getur ekki orðið lengur en meðan landið þarf ekki á öllum kröftum hans að halda, og það getur hæglega að því rekið. Þá má alls ekki eiga sjer stað, að embættismenn landsins geti ekki rækt starf sitt vegna þess, að þeim sje ofþyngt með störfum í þágu hjeraðanna.

Síðari liður 3. brtt. nefndarinnar er um, að hærri atkvæðatölu þurfi en frv. gerir ráð fyrir til þess, að bærinn geti tekið mál sín algerlega í sínar hendur, og er ástæðan fyrir þessari brtt. tekin fram í áliti nefndarinnar, svo að óþarft er að endurtaka hana.

4. brtt. er að eins leiðrjetting á ritvillu.

Það er spursmál, hvort konur eigi ekki að hafa sömu skyldur og karlmenn, fyrst þær hafa fengið sama rjett, en ef breyta á til um þetta, þá þykir nefndinni fara betur á því, að það sje gert með almennum landslögum, heldur en að annað ríki um þetta í Vestmannaeyjum en annarsstaðar á landinu, og því ber nefndin fram 5. brtt. sína.

6. brtt. er viðbót vegna fyrstu kosningarinnar í bæjarstjórnina, því að þá verður að kjósa fulla tölu bæjarfulltrúa.